Sport

Aníta og Hafdís á stjörnuprýddu Stórmóti ÍR um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR.
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR. Vísir/Vilhelm
Nítjánda Stórmót ÍR í frjálsíþróttum sem fer fram um helgina stefnir í að verða það fjölmennasta frá upphafi en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍR-ingum.

Alls hafa 26 íslensk félög tilkynnt þátttöku á Stórmóti ÍR auk þriggja félaga frá Færeyjum. Flestir hafa keppendur verið 792 en það var árið 2013.

Allar helstu stjörnur innanhússfrjálsíþrótta á landinu keppa.  Aníta Hinriksdóttir úr ÍR mun hlaupa 200 metra hlaup og 400 metra hlaup, Hafdís Sigurðardóttir UFA er skráð til keppni í 60 metra hlaupi, 200 metra hlaupi og langstökki en báðar hafa náð lágmarki til keppni á EM innanhúss sem fram fer í mars.  

Aðrir sem munu gera atlögu að lágmörkum fyrir EM á á Stórmóti ÍR eru Óðinn Björn Þorsteinsson úr ÍR sem vantar 25 sentímetra upp á lágmark í kúluvarpi, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir ÍR í 60 metra hlaupi en hana vantar 7/100 úr sekúndu upp á lágmarkið og Hafdís er einnig mjög líkleg til að ná lágmarkinu í sömu grein.

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA og Ívar Kristinn Jasonarson úr ÍR stefna undir 48 sekúndurnar í 400 metra hlaupi og Þorsteinn Ingvarsson úr ÍR og Kristinn Torfason úr FH berjast við 7,65 metra lágmark í langstökki.  

Þá mun tugþrautarkappinn Einar Daði Lárusson úr ÍR keppa í mörgum greinum en hann stórbætti sig um helgina í sjöþraut og er líklegur til að verða meðal þeirra fimmtán sjöþrautarmanna sem fá boð um að keppa á EM.  

Einar Daði gerir einnig atlögu að EM lágmarkinu í 60 metra grindahlaupi sem er 8,00 sekúndur en Einar á best 8,10 sekúndur. Þá má búast við að stangarstökkvarinn efnilegi Krister Blær Jónsson úr ÍR verði í sviðsljósinu en hann hefur ítrekað stokkið yfir fimm metrana á undanförnum mótum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×