Innlent

Andstaða við sölu áfengis í verslunum aukist á milli ára

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Yfirgnæfandi meirihluti er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða hátt í 74 prósent svarenda.
Yfirgnæfandi meirihluti er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða hátt í 74 prósent svarenda. vísir/gva
Meirihluti Íslendinga, eða 58 prósent, er andvígur því að sala léttvíns í matvöruverslunum hér á landi verði leyfð. Um 32 prósent Íslendinga eru hlynntir því, samkvæmt nýrri könnun Maskínu.

Andstaða við sölu léttvíns í matvöruverslunum hefur aukist frá því í febrúar í fyrra þegar um 52 prósent voru andvíg því og 35 prósent hlynnt því. Lítið fleiri eru hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum, eða á bilinu 33 til 34 prósent.

Yfirgnæfandi meirihluti er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða hátt í 74 prósent svarenda. Þegar niðurstöður eru skoðaðar úr öllum spurningunum þremur kemur í ljós að rúmlega 66,3 prósent eru ekki hlynntir sölu á neinu áfengi í matvöruverslunum.

Andstaða við sölu bjórs í matvöruverslunum eykst með hækkandi aldri. Þannig eru um 60 próesnt þeirra sem eru yngri en 25 ára hlynnt sölunni en aðeins um 19 prósent þeirra sem eru 55 ára og eldri. Þá er andstaðan meiri utan höfuðborgarsvæðisins.

Sá hópur sem er með lægstar fjölskyldutekjur er mest hlynntur því að leyfa sölu í matvöruverslunum eða í kringum 49 prósent. Þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur voru á bilinu 26 til 33 prósent hlynntir sölunni.

Nærri helmingur kjósenda Bjartrar framtíðar, Pírata og Sjálfstæðisflokks er hlynntur sölu bjórs á meðan kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sýna mestu andstöðuna, eða um 70-75 prósent. Sami marktæki munur var á milli hópa þegar kemur að sölu léttvíns.

Alls svöruðu 845 manns könnuninni sem fór fram dagana 21.-27. febrúar. Svarendur voru á aldrinum 18-75 ára og koma alls staðar að af landinu.

Fyrstu umræðu um frumvarp Teits Björns Einarssonar og átta annarra þingmanna Sjálfstæðisflokks, Viðreisn og Pírata, verður framhaldið í dag. Umræður stóðu yfir í sex tíma síðastliðinn fimmtudag en ekki tókst að ljúka þeim.


Tengdar fréttir

Hafa barist fyrir sama málinu í sextán ár

Teitur Björn Einarsson verður fimmti þingmaðurinn til að leggja fram frumvarp um afnám á einkarétti ríkisins til að selja áfengi. Forseti Alþingis segir fjölmörg þingmannamál vera lögð ítrekað fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×