Viðskipti innlent

Amazon er vinsælasta netverslunin hérlendis

Sæunn Gísladóttir skrifar
Jeff Bezos, forstjóri Amazon
Jeff Bezos, forstjóri Amazon vísir/getty
Hér á landi er Amazon vinsælasta netverslunin. Viðskipti við Amazon voru nær tvöfalt meiri en við næstvinsælustu netverslun landsins, AliExpress, á fyrsta ársfjórðungi 2016. Þetta sýna tölulegar upplýsingar frá Meniga sem ná til tuttugu þúsund Íslendinga. Heildarvelta á netverslunarmarkaði fer áfram vaxandi og mælist meðalupphæð sem keypt er fyrir í hvert skipti nú 5.600 krónur.

Viðskipti við AliExpress hafa þó aukist gríðarlega milli ára, eða um 30,7 prósent. Á sama tíma hafa viðskipti við Amazon vaxið um 7,6 prósent. Amazon er vinsælasta netverslunin í öllum aldurshópum en er þó með töluvert minni hlutdeild hjá yngsta aldurshópnum, 16-25 ára, eða 33 prósent, samanborið við 43 prósent hlutdeild hjá 36-55 ára. Ali Express er næstvinsælasta netverslunin hjá öllum aldurshópum, með stærstu hlutdeild hjá 26-35 ára einstaklingum, eða 26 prósent. Heimkaup.is er svo þriðja vinsælasta netverslunin hjá öllum aldurshópum, nema þeim yngsta, 16-25 ára, þar sem Asos er með sextán prósenta hlutdeild.

Af tíu vinsælustu netverslunum landsins hefur Asos vaxið mest í vinsældum milli ára, eða um 42,5 prósent. Vinsældir Forever 21 hafa hins vegar dalað verulega, og sala dregist saman um 30,5 prósent milli ára.

Netverslun virðist áfram vera að sækja í sig veðrið. Heildarvelta á markaðnum hefur aukist um sautján prósent á milli ára. Meðalsalan hefur hins vegar minnkað um tíu prósent milli ára og mælist nú 5.600 krónur. Fimmtán prósent fleiri eru þó að versla á markaðnum miðað við sama tímabil í fyrra. Fjöldi viðskipta hefur aukist um þrjátíu prósent á milli ára og því er ljóst að fleiri einstaklingar eru farnir að versla á markaðnum, og almennt sé fólk farið að versla oftar og fyrir lægri upphæðir í einu.

Sá aldurshópur sem eyðir mestu í meðalsölu á netinu er 46-55 ára, og eyðir hann að meðaltali 6.235 krónum. Sá hópur sem verslar minnst í meðalsölu er 56-65 ára hópurinn sem eyðir að meðaltali 4.542 krónum, eða 27 prósentum minna.

Úrvinnsla Meniga er byggð á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. apríl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×