Innlent

Alþingi bannar háa vexti á smálánum

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Mörgum hefur reynst það þrautin þyngri að halda jafnvægi launa og lánaafborgana í réttu hlutfalli. Nú hefur Alþingi sett þak á kostnað við vexti og innheimtu af lánum.fréttablaðið/valli
Mörgum hefur reynst það þrautin þyngri að halda jafnvægi launa og lánaafborgana í réttu hlutfalli. Nú hefur Alþingi sett þak á kostnað við vexti og innheimtu af lánum.fréttablaðið/valli
Samanlagður kostnaður lánþega vegna vaxta og innheimtu af lánum má aldrei verða hærri en 50 prósent af lánsfjárhæðinni, samkvæmt lögum um neytendalán sem Alþingi samþykkti samhljóða í gær. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir þetta koma í veg fyrir allt of háan kostnað sem víða hafi viðgengist.

„Hér hefur viðgengist á markaðnum lánastarfsemi sem hefur falið í sér margra hundraða prósenta vexti, og algjörlega fáránlegan kostnað. Þar ber hæst svokölluð smálánafyrirtæki, en líka ýmis önnur skemmri lánsform sem hafa verið með ótrúlega háa vaxtaprósentu."

Helgi segir það alltof lengi hafa viðgengist að fólki hafi, við lántöku, verið sýndir útreikningar sem miði afborganir við verðbólgumarkmið Seðlabankans eða jafnvel 0 prósenta verðbólgu. Það verður ólöglegt samkvæmt frumvarpinu, miðað verður við raunverulega verðbólgu og meðaltal síðustu tíu ára.

Krafa um upplýsingar

Frumvarpið eykur einnig aðhald með lánveitingum með kröfum um lánshæfis- og greiðslumat þegar um hærri fjárhæðir er að ræða. Helgi óttast ekki að það takmarki aðgang að lánsfjármagni. „Samþykkt frumvarpsins á ekki að breyta í veigamiklum atriðum aðgangi fólks að lánsfé, en fyrst og fremst tryggja að vandað sé til veitingarinnar og að neytendur séu vel upplýstir um það sem þeir eru að gera."

Örn Arnarson, sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, segir að lögin þýði meiri umsýslu þegar kemur að smærri lánafyrirgreiðslu. Eðlilega haldist hærri kostnaður í hendur við meiri umsýslu.

„Það er búið að sníða stóru agnúana af frumvarpinu við vinnslu þess. Við erum sammála markmiði laganna um að auka neytendavernd. Hins vegar leggur þetta frumvarp nýjar kvaðir á fjármálafyrirtæki, ekki síst viðskiptamenn. Minniháttar fjármálafyrirgreiðsla, sem hingað til hefur getað gengið hratt fyrir sig, verður þyngri í vöfum."

Tekið á smálánum

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, lagði frumvarpið fram. Hann segir það bæta réttarstöðu lánveitenda umtalsvert og fela í sér breytingar á neytendatilskipun. „Síðast en ekki síst tekur það á smálánunum og setur þak á það hvað hægt er að setja háa vexti."

Útlán – samtök fjárlánafyrirtækja án umsýslu, eða smálánafyrirtækjanna – sendi umsögn um frumvarpið til efnahags- og viðskiptanefndar. Þar sagði að í Evróputilskipuninni sem lögin innleiða sé hvergi kveðið á um hámarksvexti neytendalána og því sé óheimilt að setja slíkt í lög hér.

„Það er mat Útlána að verði sett inn ákvæði í lög um neytendalán sem kveður á um 50% hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar verði það til þess að smálánafyrirtækin leggist af þar sem starfsemin verður ekki lengur arðbær."

Þá sagði í umsögn smálánafyrirtækisins Múla að slíkt hámark gæti leitt til þess að „ómögulegt verði að veita neytendum þessa þjónustu".

Steingrímur segir að ef smálánafyrirtækin finni sér ekki markaðsstöðu innan laganna verði svo að vera. „Það er náttúrulega algjörlega ljóst að menn geta ekki stundað hvaða okurlánastarfsemi sem er, eftir setningu þessara laga. Það er eindreginn vilji löggjafans að hafa það þannig."

Ekki náðist í Hauk Örn Birgisson, talsmann Útlána, við vinnslu fréttarinnar.

Lög um fjármálalán

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir lögin skref í rétta átt en þó sé ekki nóg að gert.

„Ástæða þess að Framsóknarflokkurinn studdi ekki frumvarpið, en lagðist ekki gegn því, er sú að við teljum að ekki sé verið að gæta hagsmuna neytenda nægjanlega þegar kemur að fasteignalánum. Það vantar almenna löggjöf um fasteignalán og það er ekki verið að vernda neytendur nægjanlega þegar kemur að lántöku vegna fasteignakaupa."

Steingrímur hefur skipað nefnd til að vinna að rammalagasetningu um fasteignaveðlán til íbúðakaupa. Það næst þó ekki í gegn á þessu þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×