Innlent

Almennt launafólk krefst leiðréttinga eins og aðrir

Heimir Már Pétursson skrifar
Verðbólga mælist eitt prósent í þessum mánuði og hefur ekki mælst lægri í sextán ár. Forseti Alþýðusambandsins segir almennt launafólk ætlast til að það fái leiðréttingu á sínum kjörum eins og aðrir og njóti þess árangurs sem það hafi lagt grunninn að. Stefna ríkisstjórnar og sveitarfélaga ráði miklu um framhaldið.

Verðbólga hefur verið innan markmiða Seðlabankans í níu mánuði. Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir að þakka megi samningum sem gerðir voru í lok síðasta árs þennan árangur en launafólk sitji enn óbætt hjá garði.

Verðbólga í nóvember mælist 1 prósent og hefur ekki verið lægri frá árinu 1998 og aldrei eins lág frá því Seðlabankinn fór að vinna eftir verðbólgumarkmiðum í mars árið 2001. En það var eitt af meginmarkmiðum síðustu kjarasamninga á almennum markaði að ná niður verðbólgunni og auka þar með kaupmátt.

„Auðvitað var það okkar von, vilji og væntingar að það yrði þá breið samstaða um þessa leið. Við verðum að horfast í augu við að það hefur ekki tekist. Það hafa verið umtalsvert meiri launahækkanir á öðrum sviðum. Sviðum sem þá kannski seinna munu skila sér í áhrifum þess vegna á verðlag,“ segir Gylfi.

Hér má sjá verðbólguþróun síðustu ára.Vísir
Sveitarfélögin gætu til dæmis mætti kostnaði við hærri laun kennara og fleiri hópa með ríflegum gjaldskrárhækkunum. Gylfi segir að markmiðið um stöðugleika hafi heppnast með síðustu samningum en hins vegar hafi ekki náðst sátt um þessa leið eins og dæmin sanni. Þessa vegna séu væntingar almenns launafólks miklar.

„Samkvæmt viðræðuáætlun mun kröfugerðin mun ekki verða gengið frá kröfugerðinni fyrr en í janúar. Þá liggja allar þessar upplýsingar fyrir og munu hafa áhrif,“ segir forseti ASÍ.

Og það má heyra á Gylfa að honum finnast langtímasamningar ekki líklegir, m.a. vegna stefnu stjórnvalda. Eins og fjárlagafrumvarpið standi nú séu áhrif þess mjög neikvæð varðandi hag launafólks.

„En það er alveg ljóst að félagsmenn Alþýðusambandsins hafa auðvitað réttmætar væntingar til  að þessi leiðrétting sem er í gangi nái líka til þeirra. Mér er ekki til efs að með einhverjum hætti verður að koma til móts við að þessi hópur,  sem gerði þessa tilraun og lagði kannski grunninn að því verðbólgustigi sem er, að hann fái líka að njóta þess í sínum kjarabótum eins og aðrir. Ég held að það sé alveg skýrt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×