Viðskipti innlent

Almenningur hafnar verðtryggingunni

Magnús Halldórsson skrifar
Nýjar tölur um lán til íbúðakaupa sýna að almenningur hefur hafnað verðtryggingunni nær algjörlega, því langstærstur hluti þeirra er óverðtryggður. Forstjóri Íbúðalánasjóðs segist vonast til þess að sjóðurinn geti byrjað að veita óverðtryggð lán í lok árs.

Mikil breyting hefur orðið á fasteignamarkaði hér á landi undanfarin misseri. Um 86% af nýjum lánum inn á íbúðamarkað eru nú óverðtryggð. Íbúðalánasjóður hefur til þessa einungis veitt verðtryggð lán en er nú með á teikniborðinu breytingu í þá veru að byrja að veita óverðtryggð lán.

Vinna hefur staðið yfir hjá Íbúðalánasjóði undanfarna mánuði, sem miðar að því bjóða upp á óverðtryggð lán. Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segist vonast til þess að fólki mun standa til boða að taka óverðtryggð lán hjá sjóðnum, fyrir lok árs.

„Eins og staðan er í dag gerum við enn þá ráð fyrir því að þetta verði á þessu ári. Við erum með þessa lánavöru í umsögn hjá eftirlitsaðilum núna. Svo er bara vonandi að fara í loftið með þetta," segir Sigurður.

Lántakendur þurfa að huga vel að því hvaða lánaform hentar þeim best, þegar íbúðarkaup eru annars vegar. Til skýringar á mismuninum á óverðtryggum og verðtryggðum lánum, má hugsa sér lántaka sem er að taka lán upp á 20 milljónir til 25 ára.

Greiðslubyrðin á óverðtryggða láninu er þung í upphafi, eða 138 þúsund krónur, á meðan greiðslubyrðin á verðtryggða láninu er 103 þúsund.

Með tímanum ætti óverðtryggða lánið að lækka, en greiðslubyrðin sveiflast þó með vaxtastiginu, og getur breyst hratt ef vaxtastigið hækkar.

Greiðslubyrðin á verðtryggða láninu hækkar smám saman með tímanum, en það hangir þó saman við verðbólguþróun, á hverjum tíma.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×