Innlent

Allt að 8 stiga frost í blábyrjun sumars

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Anton
Veðurstofa Íslands spáir fremur köldu veðri um komandi helgi á má gera ráð fyrir því að laugardagurinn verði kaldastur. Gerir Veðurstofan ráð fyrir 0 til 8 stiga frosti yfir daginn en mildast verður með Suðurströndinni.

Veðurfræðingurinn Trausti Jónsson segir á bloggi sínu að það sé ástandinu talsvert til málsbóta að vindur verður líklega hóflegur yfir helgina og sömuleiðis að sólin fái að sjá sig.

„Það munar verulega um hana. Sólarleysi er ávísun á frost allan sólarhringinn, líka á Suðurlandi - og það er mikið af því góða á þessum árstíma,“ skrifar Trausti.

Hann segir það þó gerast endrum og sinnum í síðasta þriðjungi aprílmánaðar - en samt ekki síðan 1983, eða fyrir 32 árum.

„Þá var hámarkshiti þess 22. aðeins -1,5 stig, enn „betur“ gerði 29. apríl 1975, þá fór hitinn ekki yfir -2,7 gráður, og 23. apríl 1887 var hámarkshitinn -8,0 stig.“

Hann segir þó mesta kuldann vera kominn hjá eftir laugardaginn þó ekki sé beint spáð hlýindum.

Á föstudag og laugardag:

Norðan- og norðaustanátt, víða 10-15 m/s. Él fyrir norðan og austan, en lengst af þurrt og bjart veður á S- og SV-landi. Frost 0 til 8 stig yfir daginn, mildast með S-ströndinni. 

Á sunnudag og mánudag:

Ákveðin norðan átt og snjókoma eða él, en þurrt S-lands. Frostlaust við S-ströndina, annars víða 0 til 5 stiga frost. 

Á þriðjudag:

Útlit fyrir norðlæga átt og stöku él, en bjart S-til. Kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×