Innlent

Allt að 20 stiga hiti í borginni og nágrenni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fólk kunni vel að meta geisla sólarinnar í Nauthólsvíkinni í gær.
Fólk kunni vel að meta geisla sólarinnar í Nauthólsvíkinni í gær. Vísir/Vilhelm
Reykvíkingar og nærsveitungar eiga von á allt að tuttugu stiga hita í dag. Afar gott veður var í höfuðborginni í gær og verður það sama uppi á teningnum í dag.

Öllu meiri kuldi er norðan heiða þar sem hiti verður um tíu stig og þó nokkur úrkoma. Um helgina stefnir í að hitinn fari víðast hvar á landinu ekki upp fyrir tíu stig.

Veðurhorfur á landinu í dag

Norðaustan 5-13 m/s og víða skýjað, en hægari SV-til og bjartviðri. Talsverð rigning NA- og A-lands. Þykknar upp og hvessir um allt land þegar líður á daginn, norðaustan 13-20 m/s NV-til með kvöldinu, en 8-15 m/s annars staðar og rigning víðast hvar.

Áfram hvasst um landið NV-vert á morgun, en mun hægari vindur S- og A-lands. Víða rigning, en úrkomulítið á S-landi. Hiti 10 til 20 stig í dag, hlýjast SV-lands, en kólnar lítillega til morguns.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Norðan 10-18 m/s um landið norðan- og norðvestanvert og talsverð rigning. Mun hægari S- og A-til og dálitlar skúrir, en þurrt og bjart að mestu SV-lands. Hiti 4 til 12 stig, kaldast NV-til, en 11 til 16 stiga hiti S-lands að deginum.

Á laugardag:

Minnkandi norðlæg átt, 5-10 m/s síðdegis. Léttskýjað SV-lands, en skýjað og dálítil væta N-til. Annars skýjað með köflum. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á S-landi.

Á sunnudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða bjart með köflum, en dálítil væta syðst. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast SV-lands.

Á mánudag og þriðjudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×