Innlent

Allt að 131 prósenta verðmunur á æfingagjöldum í fimleikum

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/stefán
Verðlagseftirlit ASÍ tók saman hvað það kostar að æfa fimleika fyrir 8-10 ára börn haustið 2014 í u.þ.b fjórar klukkustundir á viku í 4 mánuði.

Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verðinu eða 131%.

Dýrast er að æfa hjá Gerplu í Kópavogi eða 57.308 kr. en ódýrast hjá Fimleikafélaginu Rán á 24.840 kr. sem er 32.468 kr. verðmunur eða 131%.

Gjaldskrá félaganna hefur staðið í stað hjá 3 félögum af 15 frá því í fyrra, en þau félög eru Afturelding, Keflavík og Fimleikafélagið Rán. Hin félögin hafa hækkað gjaldskrána um 2-17%.

Mesta hækkunin er hjá Íþróttafélaginu Hamri, sem hækkaði gjaldið úr 24.000 kr. í 28.000 kr. eða um 17%, Fimleikafélag Akureyrar og Fimleikafélag Akraness hafa hækkað um 14%, Grótta um 11% og Ungmennafélagið Selfoss um 10%.

Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 8-10 ára börn sem æfa u.þ.b. 4. klst. á viku, en tekinn er saman æfingakostnaður fram að jólum.

Ekki var tekið tillit til þess hvaða fimleika er verið að æfa (t.d. almenna, hóp- eða áhalda). Öll félögin eiga það sameiginlegt að setja saman gjaldskrá eftir aldri og fjölda klukkustunda sem æft er í viku hverri.

Fram kemur í tilkynningu frá ASÍ að þess beri að athuga að aðeins sé um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem sé í boði á námskeiðum félaganna sé ekki metin.

Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til safnanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum, hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman.

mynd/así



Fleiri fréttir

Sjá meira


×