Innlent

Alhvít jörð sunnan- og vestanlands

Vísir/Vilhelm
Alhvít jörð er á sunnan- og vestanverðu landinu og hálka á götum og vegum nema þar sem búið er að hálkuverja. Ýmist snjóaði eða gekk á með mjög snörpum hagléljum og var mikið úrkomumagn í þeim.

Þau gengu hinvegar fljótt yfir vegna vinds. Í gærkvöldi var víða orðið hált á vestfjörðum og víða á Norðurlandi, og sömuleiðis víða á Vesturlandid, eins og á Snæfellsnesi, en þá voru allar helstu leiðir færar.

Fréttastofunni er ekki kunnugt um óhöpp á vegunum vegna þessa.

Á Suður- og Vesturlandi eru hálka, hálkublettir eða jafnvel snjóþekja. Hálka er Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en hálkublettir í Þrengslum.

Á Vestfjörðum er einnig vetrarfærð, víðast hvar hálka eða snjóþekja.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Þá er snjóþekja og hálka á köflum á Norðurlandi. Snjóþekja er á Öxnadalsheiði og skafrenningur.

Hálka og hálkublettir eru á Mývatns- og Möðrudalsöræfum en vegir á Austurlandi eru aftur á móti víðast greiðfærir. Hálkublettir eru þó á Fjarðarheiði. Á Suðausturlandi eru hálkublettir í Öræfum og þaðan vestur úr.

Upplýsingar um færð og veður á landinu má finna hér á vef Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×