Handbolti

Alfreð vill fá Aron aftur og er búinn að gera honum tilboð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason vill fá Aron Pálmarsson aftur til Kiel.
Alfreð Gíslason vill fá Aron Pálmarsson aftur til Kiel. vísir/epa
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður Íslands í handbolta, er með samningstilboð í höndunum frá þýska stórliðinu Kiel sem Alfreð Gíslason þjálfar en þar hóf Aron sinn atvinnumannaferil fyrir sex árum síðan.

Þetta staðfestir Aron í samtali við Morgunblaðið, en hann segir að Kiel vill fá leikstjórnandann þegar samningur hans við ungverska liðið Veszprém rennur út árið 2018. Vilji Kiel fá hann fyrr verður það að borga Veszprém fyrir íslenska landsliðsmanninn.

„Ég get staðfest að þetta er flott og gott tilboð en ég er ekkert að stressa mig á hlutunum. Veszprém vill gera við mig nýjan samning og það er áhugi frá fleiri liðum. Það er ánægjulegt að áhuginn er mikill. Ég tel mig því vera í frábærri stöðu og ég ætla bara að gefa mér góðan tíma til að ákveða næstu skref,“ segir Aron við Morgunblaðið.

Aron varð Þýskalandsmeistari með Kiel fjórum sinnum og vann Meistaradeildina í tvígang áður en hann gekk í raðir Veszprém. Hann vann ungversku deildina á fyrstu leiktíð og komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor þar sem Veszprém kastaði frá sér sigrinum í seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×