Handbolti

Alfreð í vandræðum | Wiencek frá í hálft ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wiencek er lykilmaður hjá Kiel, jafnt í vörn sem sókn.
Wiencek er lykilmaður hjá Kiel, jafnt í vörn sem sókn. vísir/getty
Þýskalandsmeistarar Kiel urðu fyrir miklu áfalli um helgina þegar línumaðurinn sterki Patrick Wiencek sleit krossband í hægra hné.

Þýski landsliðsmaðurinn meiddist í fjögurra marka sigri Kiel á Flensburg, 27-23, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu á laugardaginn.

Í dag kom svo í ljós að Wiencek er með slitið krossband og verður frá keppni næstu sex mánuðina. Hann verður því ekki með þýska landsliðinu á EM í Póllandi í janúar á næsta ári.

Meiðsli Wiencek setja Alfreð Gíslason, þjálfara Kiel, í klemmu en hann verður aðeins með einn línumann í toppslagnum gegn Rhein-Neckar Löwen á miðvikudaginn.

Hinn 21 árs gamli Rogerio Ferreiro, sem kom til Kiel í sumar, er með brasilíska landsliðinu á heríþróttaleikunum í Suður-Kóreu og snýr ekki aftur til Kiel fyrr en 11. október. Það mun því mikið mæða á Dananum René Toft Hansen gegn Löwen á miðvikudaginn.

Sjá einnig: Alfreð sendir Jicha tóninn

Kiel má ekki við að tapa stigum í þeim leik en Löwen er með fjögurra stiga forskot á lærisveina Alfreðs á toppi þýsku deildarinnar þegar átta umferðunum er lokið.

Wiencek hefur skorað 26 mörk fyrir Kiel í þýsku deildinni á tímabilinu en hann kom til liðsins frá Gummerbach 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×