Handbolti

Alexander og Guðjón Valur með 20 af 30 mörkum Löwen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skoraði jöfnunarmark Löwen og tryggði liðinu annað stigið.
Alexander skoraði jöfnunarmark Löwen og tryggði liðinu annað stigið. vísir/getty
Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu 10 mörk hvor þegar Rhein-Neckar Löwen og Füchse Berlin skildu jöfn, 30-30, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Þegar sex mínútur voru eftir komust Berlínarrefirnir tveimur mörkum yfir, 29-27. Kim Ekdahl du Rietz var fljótur að minnka muninn og Guðjón Valur Sigurðsson jafnaði svo af vítalínunni.

Hans Lindberg kom Füchse Berlin aftur yfir, 30-29, með marki úr vítakasti en Alexander átti síðasta orðið þegar hann jafnaði í 30-30 rúmri mínútu fyrir leikslok.

Alexander og Guðjón Valur voru báðir með frábæra skotnýtingu en þeir þurftu aðeins 12 skot til að skora mörkin sín 10. Sjö af mörkum Guðjóns Vals komu af vítalínunni.

Löwen er í 3. sæti deildarinnar með 35 stig, sex stigum á eftir toppliði Flensburg. Ljónin eiga þó tvo leiki til góða.

Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk fyrir Füchse Berlin sem er í 5. sætinu með 33 stig.

Í hinum leik dagsins vann Bergischer afar mikilvægan sigur á Lemgo, 23-25. Þetta var þriðji sigur Bergischer í röð og liðið er núna aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti.

Arnór þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer. Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í markinu og varði 15 skot (42,9%).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×