Erlent

Aldraður ökumaður keyrði á ólétta konu

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að Jodie hafi staðið á hækjum sér við vegginn þegar Allen keyrði á hana.
Talið er að Jodie hafi staðið á hækjum sér við vegginn þegar Allen keyrði á hana. Skjáskot
Ólétt kona sem stóð fyrir framan apótek í Pittsburgh í Bandaríkjunum lét lífið eftir að 88 ára gamall maður ók á hana. Hann ruglaðist á bensíngjöfinni og bremsunni, keyrði upp á gangstétt og klemmdi konuna upp við vegg. Konan lést en barnið lifði af.

Jodie Guthrie var 30 ára gömul þegar þegar hún lést á miðvikudaginn. Ökumaðurinn ætlaði að leggja í stæði við apótekið en í stað þess að bremsa steig hann á bensíngjöfina.

Drengurinn sem hefur fengið nafnið Trace Joseph var tekinn með keisaraskurði, en hann er í öndunarvél og er haldið í lágu hitastigi til að koma í veg fyrir heilaskemmdir.

„Hann átti ekki að fæðast á þennan hátt. Við áttum að vera hamingjusöm,“ sagði faðir drengsins við Action News 4 í Pittsburgh. George Weatherwalk var á heimili hans og Jodie þegar honum var tilkynnt um slysið.

„Ég gekk inn á sjúkrahúsið og þeir sögðu: Hvort viltu góðu eða slæmu fréttirnar? Um leið og þeir sögðu að sonur minn hefði lifað af, vissi ég að hún væri dáin.“ Hann sagðist einnig óska þess að fjölskylda ökumannsins eða læknar hefðu komið í veg fyrir að hann færi akandi um.

Samkvæmt Action News 4 sýnir ökumaðurinn Allen Massie einkenni elliglapa. Samkvæmt fjölskyldu hans ætlaði hann út í búð fyrir viku síðan en endaði í öðru ríki Bandaríkjanna.

Hann var yfirheyrður af lögreglu en hann á ekki ákæru yfir höfði sér.

Vegfarendur sem urðu vitni að atvikinu reynd að fá Allen til að bakka en hann áttaði sig ekki á því hvað hefði gerst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×