Handbolti

Ákváðum að skella okkur í þetta ævintýri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin er á leið í mikið ævintýri á morgun.
Björgvin er á leið í mikið ævintýri á morgun. fréttablaðið/andri
„Nú er stefnan bara sett á að yfirgefa landið á miðvikudag,“ segir nýjasti atvinnumaður Íslendinga, Björgvin Hólmgeirsson, en hann skrifaði í gær undir tíu mánaða samning við Al Wasl SC frá Dúbaí. Hann verður fyrsti íslenski handboltamaðurinn til þess að spila í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

„Þetta var besta peningatilboðið sem ég fékk,“ segir Björgvin en sænska liðið Skövde og rúmenska liðið Dinamo Búkarest vildu líka fá hann frá ÍR. Hann segist þó ekki verða moldríkur á þessum samningi.

„Hitt gekk mjög brösuglega fyrir sig og við fjölskyldan ákváðum því að skella okkur í þetta ævintýri. Þetta verður mjög fróðlegt.“

Björgvin er orðinn 27 ára gamall og á því vonandi sín bestu ár eftir í boltanum.

„Ég veit nákvæmlega ekkert hvað ég er að fara út í. Ég þekki engan annan leikmann í liðinu en mér er sagt að þeir séu allir heimamenn og landsliðsmenn. Það má bara vera einn Evrópubúi í hverju liði. Mér sýnist á öllu að þetta sé átta eða níu liða deild og fullt af keppnum inn á milli. Þetta lið varð um miðja deild í fyrra.“

Aðdragandinn að þessum félagaskiptum var ekki langur eða um tvær vikur. „Vonandi gengur mér vel og ég fæ nýjan samning. Ég verð örugglega sendur heim snemma ef ég get ekki neitt. Ég ætla bara að fara út og sjá til hvað gerist hjá mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×