Innlent

Akranesviti orðinn klár menningarviti

Hilmar Sighvatsson
Hilmar Sighvatsson
Frá því í mars hefur almenningi staðið til boða að koma við og virða fyrir sér Faxaflóann og fögur fjöll úr Akranesvita. Ekki hefur staðið á gestunum en einir 2.314 hafa skráð sig í gestabókina.

Það stendur þó meira til boða en útsýnið því félagar í Félagi áhugaljósmyndara á Akranesi hafa bryddað upp á tónlistaruppákomum í vitanum og svo eru þar settar upp ljósmynda- og myndlistarsýningar. Félagið sér um gæslu vitans.

„Sú þekktasta sem hefur stigið á svið hjá okkur er Andrea Gylfa,“ segir Hilmar Sighvatsson, einn forsvarsmanna félagsins. „Það fer vel á því að blúsa svolítið við hafið bláa,“ segir hann kankvís. „Menn eru býsna ánægðir með hljómburðinn. Reyndar hefur Lárus Sighvatsson, skólastjóri tónlistarskólans hérna, sagt að hann sé álíka og hljómburðurinn í Péturskirkjunni í Róm.“

Til að sem flestir fái að njóta hljómburðarins hefur Hilmar tekið tónlistarflutninginn upp og má heyra og sjá upptökur frá mörgum þeirra á fésbókarsíðu Akranesvita. „Þetta hefur aðallega verið tónlistarfólk frá Akranesi, til dæmis kom þjóðlagasveit tónlistarskólans hingað og ég er búinn að hengja mig á fleiri tónlistarmenn en svo viljum við endilega fá fleira fólk úr bransanum.“

Reyndar standa þarna tveir vitar skammt hvor frá öðrum en sá gamli, sem reistur var 1918, má muna sinn fífil fegurri. „Það stendur þó til bóta því nú á næstu dögum, að mér skilst, verður hafist handa við að taka hann í gegn,“ segir Hilmar. Nýrri vitinn var tekinn í notkun árið 1947 og lætur enn þá ljós sitt skína. Þó svo að örlög hans séu fyrst og fremst að vísa sjófarendum leið segir Hilmar grínaktugur að í hugum Akurnesinga sé þetta orðinn hreinn og klár menningarviti.

jse@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×