Innlent

Ákærður fyrir að slá mann ítrekað í höfuð með golfkylfu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað í húsi á Ólafsfirði.
Árásin átti sér stað í húsi á Ólafsfirði. Vísir/GK
26 ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið ítrekað í höfuð og líkama fertugs manns með golfkylfu á Ólafsfirði sumarið 2012. Maðurinn er sagður hafa gripið til golfkylfunnar í kjölfar þess að þrír menn slógu og spörkuðu í annan mann í sama húsi á Ólafsfirði að því er segir í ákærunni.

Atburðurinn var að kvöldi 27. júní þar sem þremur mönnum, einum rúmlega tvítugum, öðrum rúmlega þrítugum og þeim þriðja rúmlega fertugum, er gefið að sök að hafa ráðist á rúmlega tvítugan mann í húsi á Ólafsfirði. Eiga þeir að hafa í sameiningu sparkað og slegið í manninn með þeim afleiðingum að hann vankaðist og fann til eymsla í hálsi og baki.

Í kjölfarið er 26 ára karlmanni gefið að sök að hafa ráðist á þann elsta í hópi þremenninganna með golfkylfu og slegið ítrekað í höfuð og líkama. Hlaut sá elsti þrjá skurði á höfði, einn langan á milli augna, sex til sjö sentimetra skurð á milli augna og tíu sentimetra skurð á hvirfli.

Sá 26 ára er einnig ákærður fyrir fíkniefnabrot með því að hafa að morgni 30. júní haft tvær kannabisplöntur í vörslu sinni þegar lögregla hafði afskipti af honum vegna annars máls.

Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Norðurlands Eystra en ríkissaksóknari sækir málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×