Innlent

Áhyggjuefni hversu fáir vilja mæla með þjónustu hér á landi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Neytendur þjónustu íslenskra fyrirtækja eru almennt ekki tilbúnir að mæla með þjónustunni.
Neytendur þjónustu íslenskra fyrirtækja eru almennt ekki tilbúnir að mæla með þjónustunni. Fréttablaðið/Pjetur
Meðmælavísitala íslenskra fyrirtækja mælist almennt lág en það þýðir að minnihluti viðskiptavina fyrirtækja á Íslandi er tilbúinn til að mæla með þjónustu fyrirtækjanna. Þetta kemur fram í könnun MMR en niðurstöður hennar voru birtar í gær.

MMR kannaði meðmælavísitölu 73 íslenskra fyrirtækja í nítján atvinnugreinum. Af þessum nítján greinum mældist meðmælavísitalan neikvæð í átján. Meðal meðmælavísitala atvinnugreinanna var á bilinu -61 prósent til 0 prósent. Af fyrirtækjunum mældist meðmælavísitalan neikvæð í 63 fyrirtækjum eða í 86 prósentum þeirra.

„Lágt hlutfall meðmælenda er áhyggjuefni fyrir íslensk fyrirtæki enda benda rannsóknir eindregið til þess að jákvæð (og/eða neikvæð) umfjöllun viðskiptavina sé sá þáttur sem hafi hvað mest áhrif á öflun nýrra viðskiptavina,“ segir í niðurstöðum könnunarinnar. Þar er vísað í eldri kannanir MMR þar sem fram kom að 80 prósent viðskiptavina treystu helst á meðmæli fólks sem þeir þekkja þegar þeir leita upplýsinga um vörur eða þjónustu.

Þegar miðað er við Bretland, Frakkland og Þýskaland kemur í ljós að meðmælavísitala er almennt lág í öllum löndunum en í þremur af fjórum atvinnugreinum var hún lægri á Íslandi en í hinum þremur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×