Erlent

Ahluwalia neitar að yfirgefa flugvöllinn

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Ahluwalia hefur meðal annars leikið í myndum Wes Anderson.
Ahluwalia hefur meðal annars leikið í myndum Wes Anderson. Nordicphotos/AFP
Leikarinn Waris Ahluwalia er nú í setuverkfalli á Mexíkóflugvelli eftir að hafa neitað að fjarlægja af sér túrban til að fljúga heim til Bandaríkjanna með flugfélaginu Aeromexico.

Ahluwalia er síki og rækir því trú sína með því að hylja hárið með túrban og rækta skegg sitt.

Honum var neitað um að fara um borð í flugvélina eftir að hafa neitað að fjarlægja túrbaninn.

Eftir að fréttir af þessu komust í hámæli bauð Aeromexico Ahluwalia ókeypis flugmiða til Bandaríkjanna sem hann afþakkaði. Þá hefur hann einnig afþakkað boð annarra flugfélaga og dvelur nú á flugvellinum í Mexíkó.

„Á þessum tímapunkti átta ég mig á því að þetta snerist ekki um mín eigin þægindi,“ sagði hann í samtali við The Washington Post. „Ég geri mér grein fyrir því að ef að ég bakka með þetta er það bara einhver annar sem þarf að ganga í gegnum þessa upplifun seinna.“

Algengt er að síkum sé mismunað á þennan hátt en þeim er gjarnan ruglað saman við múslima en trúarbrögð síka sem er eingyðistrú má rekja til Indlands.

Fjölmargir síkar hafa eflaust lent í sömu hremmingum og Ahluwalia en að þessu sinni hefur þetta vakið töluverða athygli í fjölmiðlum vestanhafs. Ahluwalia er fyrirsæta og leikari en hann hefur meðal annars leikið í fjölmörgum kvikmyndum leikstjórans Wes Anderson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×