Skoðun

Afnám stimpilgjalda núna

Ragnheiður Ríkharðsdóttir skrifar
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingar á lögum um stimpilgjald nr. 36/1978 og er undirrituð fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Með frumvarpinu eru tekin fyrstu skref í afnámi stimpilgjalda, þessa óverjandi skatts sem lagður er á fólk og fyrirtæki sem taka lán í formi veðskuldabréfa. Þar er lagt til að stimpilgjöld vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði afnumin. Augljós rök hníga að því að auðvelda einstaklingum að koma sér þaki yfir höfuðið og slík viðskipti á ekki að nýta til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Í gildandi lögum er kaupandi undanþeginn stimpilgjaldi við fyrstu kaup en breytingarnar taka til allra almennra kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að endurfjármögnun lána vegna íbúðarhúsnæðis verði varanlega undanþegin stimpilgjaldi. Nú þegar margir leita leiða til að skuldbreyta húsnæðisláni sínu og íhuga til dæmis að breyta úr verðtryggðu láni í óverðtryggt og að færa sig á milli lánastofnana er eðlilegt að fólk leiti tilboða hjá fjármálafyrirtækjum og beini viðskiptum sínum þangað sem bestu kjörin bjóðast. Afnám stimpilgjalda auðveldar það.

Af veðskuldabréfum og tryggingarbréfum, þegar skuld ber vexti, þarf að greiða 1,5% stimpilgjald af fjárhæð bréfs. Af afsölum, kaupsamningum og öðrum yfirfærslugerningum um fasteign greiðist 0,4% stimpilgjald af fasteignamati eignar að lóðarréttindum eignar meðtöldum. Afnám þessara gjalda, sem geta numið umtalsverðum fjárhæðum, er því til augljósra hagsbóta fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

Eftirlitsstofnun ESA hefur gert athugasemdir við stimpilgjöldin og ríkisstjórnin boðaði þess vegna breytingar í október síðastliðnum en hefur nú sagt að nefnd muni skila af sér tillögum á vordögum. Við skulum ekki bíða eftir því heldur afgreiða á þessu þingi það frumvarp sem liggur fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd, það yrði gjörningur sem kæmi bæði einstaklingum og fjölskyldum í þessu landi til góða.




Skoðun

Sjá meira


×