Erlent

Afganir lýsa yfir þjóðarsorg vegna árásarinnar í Kabúl

Atli Ísleifsson skrifar
Fórnarlömb árásarinnar voru borin til grafar í dag.
Fórnarlömb árásarinnar voru borin til grafar í dag. Vísir/AFP
Afgönsk stjórnvöld hafa lýst yfir þjóðarsorg í landinu eftir sprengjuárás gærdagsins þar sem áttatíu manns hið minnsta fórust og rúmlega 260 særðust.

Fórnarlömbin létust í samhæfðri árás þriggja manna í friðsamlegri mótmælagöngu í höfuðborginni Kabúl, en þau voru borin til grafar í dag.

Ashraf Ghani, forseti Afganistans, hét því að hefna árásarinnar en hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á henni. Ghani sagðist mjög hryggur vegna árásarinnar, sér í lagi þar sem hún beindist að óbreyttum borgurum sem vildu láta rödd sína heyrast.

Fórnarlömbin voru fyrst og fremst Hasarar og sjítar sem voru að mótmæla niðurskurðaráformum stjórnvalda sem höfðu nýverið lýst því yfir að hætt yrði við lagningu spennulínu um héraðið Bamiyan sem er eitt fátækasta hérað landsins.

BBC hefur eftir heimildarmanni innan afganska innanríkisráðuneytisins að þrír menn hefðu ætlað sér að framkvæma árásina en að einungis einum þeirra hefði tekist að sprengja sig í loft upp. Sprengjuvesti annars mannsins sprakk aldrei og öryggissveitir drápu þann þriðja.

Um þrjú þúsund mótmælendur tóku þátt í göngunni.

Hasarar mynda þriðja stærsta þjóðarbrotið í Afganistan og hafa sætt ofsóknum um áratuga skeið. Þeir eru að stærstum hluta sjítamúslimar og eru af mongólskum uppruna.

Hasarar eru jafnframt fjölmennir í Íran, en írönsk stjórnvöld hafa fordæmt árásina. Utanríkisráðherrann Javad Zarif segir á Twitter-síðu sinni að nauðsynlegt sé fyrir súnnía og sjíta að sameinast í baráttunni við öfgamennina.

SVT segir árás gærdagsins þá mannskæðustu í Kabúl allt frá árinu 2001.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×