Skoðun

Af hverju ekki nefskattur?

Einar Karl Friðriksson skrifar
Í desember 2013 skipaði innanríkisráðherra starfshóp sem hafði það verkefni að endurskoða fjárhagsleg samskipti ríkis og Þjóðkirkjunnar og safnaða hennar. Sá sem hér ritar hefði haldið að slíkur hópur myndi taka tillit til athugasemda Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem í úttekt sinni á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2012 gerði athugasemd við fyrirkomulag sóknargjalda á Íslandi.Nefndin taldi að íslensk stjórnvöld ættu ekki að leggja sóknargjöld á alla þegna óháð því hvort þeir séu skráðir í trúfélag eða kjósi að standa utan þeirra. Í dag eru sóknargjöld ekki innheimt sérstaklega heldur litið svo á að þau séu hluti af almennum tekjuskatti, en álagning tekjuskatts er alveg óháð trúfélagaaðild.

Því kemur á óvart að í frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytis frá 5.9. um tillögur starfshópsins kemur ekkert fram um hugsanlegar breytingar á þessu kerfi. Einungis er talað um að hækka þurfi þær upphæðir sem renna úr ríkissjóði til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, til að leiðrétta fyrir skerðingu þessara gjalda til jafns við aðra aðila „sem byggja rekstur sinn á framlögum af fjárlögum“. Í frétt á heimasíðu Þjóðkirkjunnar má lesa meira um vinnu starfshópsins, en þar stendur: „Starfshópurinn telur að það fyrirkomulag sem kveðið er á um í gildandi lögum um sóknargjöld hafi staðist tímans tönn. Það sé farsælt bæði fyrir ríki og kirkju þar sem það skapi stöðugleika í fjármögnun sókna og sé einfalt í framkvæmd.“

Hvernig það geti talist hagstætt fyrir ríkið að þurfa að greiða sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar og fjölda misgáfulegra trúfélaga úr ríkissjóði er erfitt að sjá. Eðlilegra væri að trúfélög, líkt og önnur félög sem vilja kalla sig sjálfstætt starfandi félög, innheimti sín félagsgjöld sjálf, en fái þau ekki greidd úr ríkissjóði. Ef hins vegar ríkið og trúfélög vilja að ríkið annist innheimtu sóknargjalda ætti ríkið að innheimta slík gjöld sem nefskatt á þá sem skráðir eru í trúfélög, en ekki líta svo á að sóknargjöld séu innifalin í almennri skattheimtu á alla þegna, líkt og hver önnur ríkisrekin þjónusta.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×