Lífið

Ætlar að lýsa upp kirkjuna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Litli turninn var erfiðastur viðfangs,“ segir Ragnhildur sem hafði kirkjutröppurnar upprunalegar.
„Litli turninn var erfiðastur viðfangs,“ segir Ragnhildur sem hafði kirkjutröppurnar upprunalegar. Vísir/GVA
„Kirkjan er frumraun mín í módelsmíði,“ segir Ragnhildur Þórðardóttir um nákvæmt líkan sem hún hefur gert af Auðkúlukirkju í Svínadal sem vígð var 1894. Hvernig fór hún að því?

„Ég fann nákvæma teikningu í bókinni Kirkjur Íslands og minnkaði hana. Svo sneið ég líkanið úr stífum pappa, eins og notaður er í bókarkápur, og klæddi það allt með litlu timbri, svo það liti út eins og upprunakirkjan.“

Spýturnar kveðst Ragnhildur hafa sagað til svo að þær féllu rétt saman og pússað hverja og eina þannig að þær yrðu kúptar.

„Þetta er mikið nákvæmnisverk,“ viðurkennir hún og nefnir meðal annars fínlegar súlur sem standa upp úr þakinu og litla krossa á þeim sem eru búnir til úr tannstönglum.

„Það eina sem ég keypti voru kúlurnar sem eru undir krossunum. Það var mikill vandi að búa til efsta turninn. Heilmikið mál,“ segir hún og bætir við:

„Ég get lyft þakinu upp og þegar fer að dimma meira í kringum mig ætla ég að hafa ljós inni í kirkjunni.“

Ragnhildur er uppalin á Grund í Svínadal og hefur búið á Merkjalæk í sömu sveit frá 1978. Hún dvelur þó í Reykjavík að vetrinum og kynntist fyrst útskurði í Gerðubergi árið 2006 undir leiðsögn Einars Jónassonar sem einnig kennir líkanasmíði. Hún kveðst hafa gaman af hvorutveggja og öllu handverki enda hafi hún lengi prjónað og saumað, mótað keramik og málað postulín.

Auðkúlukirkja er sóknarkirkja Ragn­hildar.

„Séra Stefán M. Jónsson, fóstur-langafi minn, lét byggja hana á eigin kostnað,“ segir Ragnhildur, „og enginn veit hvaðan hann fékk hugmyndina að útliti hennar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×