Innlent

Ætlar að leggja til veiðigjöld á hvalveiðar

Svavar Hávarðsson skrifar
Hval landað Langreyður í Hvalstöðinni í Hvalfirði.
Hval landað Langreyður í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Fréttablaðið/Vilhelm
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stefnir að því að leggja fram tillögur á Alþingi í vetur um veiðigjöld á hvalveiðar.

Í svari Sigurðar við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, á dögunum um eftirlit með veiðum á hrefnu og langreyði kom fram að verið væri að gaumgæfa „hvernig leggja megi á veiðigjöld vegna veiða á hval“.

Í svari ráðuneytisins til Fréttablaðsins um málið kemur fram að Sigurður „telur æskilegt að þau sjónarmið sem eiga við um veiðigjöld taki til veiða allra stofna við landið, og því jafnt um sjálfbæra nýtingu hvala og hrefna eins og annarra fiskistofna.“

Sigurður Ingi Jóhannsson
Ráðherra hefur því falið skrifstofu sjávarútvegs innan atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins að hefja könnun á því með hvaða hætti megi útfæra veiðigjöld á hval- og hrefnuveiðar. 

Vinnan mun vera á frumstigi; gagnagreining og könnun á því hvernig veiðigjald á hval og hrefnu falli að öðrum veiðigjöldum. 

Í svari ráðuneytisins segir að samráð við hagsmunaaðila og aðra sé ekki hafið. 

„Vonir standa til að vinnunni vindi fram með haustinu þannig að leggja megi tillögur um veiðigjöld á hval- og hrefnuveiðar fyrir þingið í vetur,“ segir í svarinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×