Erlent

Ætla að endurvekja geirfuglinn: „Væri stórkostlegt ef okkur tekst það“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandarískir vísindamenn stefna ótrauðir á að endurvekja hinn ófleyga en fornfræga geirfugl til lífsins.
Bandarískir vísindamenn stefna ótrauðir á að endurvekja hinn ófleyga en fornfræga geirfugl til lífsins. Vísir/Getty
Hópur vísindamanna stefnir nú að því að endurvekja geirfuglinn sem varð útdauður á 19. öld. Ætlunin er að blanda saman erfðaefnum geirfuglsins við sinn nánasta ættinga, álkuna. Takist þetta mun geirfuglinn svamla um Atlantshafið á ný.

Það er bandaríska rannsóknarstofnunin Revive & Restore sem stendur að baki verkefninu og telja forsvarsmenn þess það vel hægt að endurvekja geirfuglinn og smám saman kynna hann fyrir sínum gömlu heimkynjum í norður-Atlantshafi

Sækja á erfðefni úr geirfuglinum úr líffærum eða steingervingum sem varðveist hafa en talið er að áttatíu uppstoppuð eintök séu til, þar á meðal á Náttúrufræðistofnun Íslands eintak af geirfuglinum sem var keypt á uppboði á Sothebys eftir söfnun hér á landi.





Líkan af geirfuglinumVísir.
Para á erfðaefnið við álkuna en ýmislegt er þó eftir takist það. Geirfuglinn var mjög stór fugl, rúmir 70 sentímetrar á lengd og langstærsti fuglinn í ættinni svartfuglaætt. Hafa vísindamennirnir séð fyrir sér að koma frjóvguðum erfðavísum fyrir í gæsum sem henti vel til þess að verpa geirfuglseggjum.

Matt Ridley, vísindamaður, sem kemur að verkefninu segir að takist ætlunarverkið verði það mikill áfangi en geirfuglinn hafi verið einn örfárra fugla á norðurhveli jarðar sem ekki gat flogið.

„Það væri stórkostlegt ef okkur tekst það,“ segir Ridley en markmiðið er að koma fuglinum fyrir á eyjunni Farnes undan ströndum Bretlandseyja

En er þetta hægt?

„Já, það er fræðilega mögulegt og það er líklega tæknilega mögulegt þó að menn hafi ekki reist til lífs útdauðar dýrategundir,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar þegar hann var spurður að því árið 2011 hvort mögulegt væri að endurvekja geirfuglinn.

Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl.

Voru síðustu geirfuglarnir veiddir í Eldey 4. júní 1844 þegar þrír íslenskir sjómenn voru beðnir um að safna nokkrum eintökum fyrir danskan náttúrugripasafnara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×