Körfubolti

Ægir Þór líklega á leið til KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ægir Þór Steinarsson í leik gegn Serbíu á EM.
Ægir Þór Steinarsson í leik gegn Serbíu á EM. vísir/valli
Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfubolta, spilar að öllum líkindum með KR í Dominos-deild karla í vetur.

Ægir Þór er samningslaus eftir að spila með Sundsvall Dragons í Svíþjóð á síðustu leiktíð, en hann fór með íslenska liðinu á EM fyrr í þessum mánuði.

„Þetta er allt í vinnslu. Ægir er mjög jákvæður og kominn ansi langt í þessu ferli með okkur í KR. Við vonumst eftir því að geta skrifað undir samning á næstu dögum,“ segir Böðvar Guðjónsson, formaður meistaraflokksráðs hjá KR, við Vísi.

„Það er ekkert fast í hendi auðvitað fyrr en búið er að skrifa undir, en við höfum verið í góðu sambandi við hann. Við yrðum gríðarlega ánægðir með að fá svona sómadreng eins og Ægir ern innan sem utan vallarn til okkar í KR,“ segir Böðvar.

Ægir Þór er uppalinn Fjölnismaður og spilaði síðasta með liðinu í Dominos-deildinni 2012. Hann spilaði síðast heila leiktíð veturinn 2010-2011 og skoraði þá 16 stig og gaf 8,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

KR liðið, sem hefur unnið Dominos-deildina undanfarin tvö keppnistímabil, verður ekki árennilegt með Ægi innan sinna raða. Í liðinu eru fyrir landsliðsmennirnir Pavel Ermolinskij, Helgi Már Magnússon og Brynjar Þór Björnsson.

KR er svo með aðra frábæra leikmenn á borð við Darra Hilmarsson og Bandaríkjamanninn Michael Craion auk ungra og efnilegra leikmann.

„Við setjum markið alltaf hátt í KR. Við erum heppnir að vera með þessa frábæru leikmenn en ekki má gleyma því að önnur lið í deildinni hafa líka styrkt sig. Við getum orðið meistarar þriðja árið í röð og það ætlum við að gera,“ segir Böðvar Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×