Innlent

Aðildarumsóknin best heppnaða brella seinni ára

Mynd/Teitur Jónasson
„Hugmyndin að sækja um og sjá hvað er í boði er vafalaust best heppnaða pólitíska brella seinni ára. Ekki getur fólk verið á móti því að kostir aðildar séu kannaðir," sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, við upphaf Búnaðarþings í dag.

Haraldur sagði að aðildarumsóknin væri ekki annað en boð um að hér verði hafist handa við að breyta stjórnkerfi landsins að kröfum Evrópusambandsins og færa sjálfsstjórn Íslands og sjálfstæði undir fjarlæg stjórnvöld. Hann sagði að undirbúningur bænda vegna aðildarviðræðna stjórnvalda við ESB væri traustur og byggi á áralangri þekkingaröflun um innviði landbúnaðarstefnu sambandsins.

Þá sagði Haraldur að ríkisstjórnin væri vægast sagt ósamstíga í Evrópusambandsmálunum. „Það er varla hægt að búast við glæstum árangri þegar þeir sem standa í stafni bera ekki gæfu til að standa saman og sýna styrk," sagði formaðurinn og bætti við að veikleikar Íslendinga væru styrkleikar viðræðuaðilans.

„Sáttmáli stjórnarflokkanna um aðildarumsókn líkist því helst að ákveðið hafi verið að tvímenna í útreiðartúr til ESB-girðingarinnar. Annar snýr aftur og hinn fram í hnakknum og síðan hotta þeir á klárinn í sitt hvora áttina. Meðan aðildarsinninn horfir yfir taglið sér hann fyrirheitnu girðinguna fjarlægjast en streðar þó enn. Hinn þorir ekki að taka almennilega í tauminn og stöðva. Ekki get ég hugsað þá hugsun til enda, eins og sagt er nú á tímum, hvernig útreiðartúrinn endar," sagði Haraldur.




Tengdar fréttir

Aðeins þriðjungur hlynntur ESB-aðild

Tæplega 60% landsmanna eru andvígir inngöngu Íslands í Evrópusambandið en 33,3% eru hlynntir aðild. Hátt í 60% landsmanna segjast ekki bera neitt eða lítið traust til stjórnvalda þegar kemur að því að gæta hagsmuna þjóðarinnar í umsóknarferli um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skoðanakönnun sem Capacent-Callup gerði fyrir Bændasamtökin í tengslum við Búnaðarþing sem var sett í Bændahöllinni í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×