Viðskipti innlent

Aðeins fjórar evrópuþjóðir hafa verri skuldastöðu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands
Á tæpum þremur árum hafa skuldir ríkissjóðs hækkað um fjögur hundruð milljarða króna og eru núna 1.900 milljarðar. Aðeins fjórar Evrópuþjóðir hafa verri skuldastöðu ríkisins en Ísland.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað á undanförnum mánuðum barið sér á brjóst fyrir góðan árangur í ríkisfjármálum svo ætla mætti að skuldastaða ríkissjóðs væri mjög góð. En hver er staðan?

Eins og sést á töflu í myndskeiðinu hér að ofan jukust skuldir ríkisins mikið í hruninu en fóru svo niður í rúmlega 1500 milljarða króna í mars 2010.Síðan þá, á tæpum þremur árum, hafa skuldir ríkissjóðs hins vegar hækkað um rúmlega fjögur hundruð milljarða króna og námu rúmlega 1900 milljörðum króna í október síðastliðnum.

Það er tæplega 120 prósent af vergri landsframleiðslu Íslands.

Í tölfræði frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, fyrir skuldir þjóðríkja á árinu 2011, sem sjá má í myndskeiðinu hér að ofan, sést að aðeins fjögur ríki Evrópu hafa hærri skuldir ríkissjóðs en Ísland. Þetta eru Grikkland, Írland, Ítalía og Portúgal.

Inni í skuldatölunni hér framar eru einnig lífeyrisskuldir ríkissjóðs. Séu þær teknar út eru skuldirnar um 1500 milljarðar króna sem er 88 prósent af landsframleiðslunni.

Þá er rétt að hafa í huga þegar rætt er um árangur í ríkisfjármálum að afkoma ríkissjóðs hefur batnað nokkuð að undanförnu.

Svokallaður frumjöfnuður er skilgreindur sem jöfnuður tekna og gjalda að vaxtatekjum og vaxtagjöldum undanskildum. Halli á frumjöfnuði fór úr 6,5 prósent af landsframleiðslu árið 2009 í það að vera jákvæður um rúmlega 2 prósent á síðasta ári samkvæmt áætlun.

Auk þess hafa komið til einskiptis greiðslur vegna afskrifta sem hafa, ásamt bókfærðum hallarekstri, aukið skuldir ríkissjóðs. Þá er rétt að hafa í huga að nokkrar eignir eru á móti þessum skuldum, meðal annars í gjaldeyrisforða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×