Lífið

Aðdáendur Bieber grátbiðja hann um að hætta við tónleikaferðalög

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Justin Bieber.
Justin Bieber. Vísir/Getty
Aðdáendur poppstjörnunnar Justin Bieber biðluðu í dag til stjörnunnar um að hætta við komandi tónleikaferðalag sitt til Bretlands í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á tónleikum Ariönu Grande í Manchester, þar sem 22 létust og 59 manns særðust.

Bieber á til að mynda að koma fram á tónleikum í Hyde Park almenningsgarðinum í London í júlí næstkomandi. Aðdáendur hans hafa herjað á aðgang Bieber á samfélagsmiðlum og hvatt hann til þess að hætta við til þess að tryggja öryggi sitt, sem og aðdáenda sinna.

Þannig hefur Leanne Murray, tvítugur aðdáandi Bieber í Írlandi sagt í samtali við Reuters fréttaveituna að hún íhugi nú að selja miðann sinn á tónleika með poppstjörnunni sem fara fram í Dublin í næsta mánuði.

Ég vil bara ekki að eitthvað sem ég vona að verði frábært kvöld muni enda á sama hátt og tónleikarnir í gær. Það er ógnvekjandi að hugsa til þess að þetta gæti verið hver sem er og að þú veist aldrei hvað er handan við hornið.

Slík tónleikaferðalög eru það sem veitir tónlistarmönnum nútímans hve mestar tekjur en tónlistarmenn líkt og Taylor Swift, Bieber, One Direction og Ariana Grande græða mest á slíkum ferðalögum.

Talið er líklegt að foreldrar muni nú hafa varann á áður en þeir leyfa börnum sínum að sækja slíka tónleika í kjölfar árásarinnar í Manchester.

Jim Donio, forseti tónlistariðnaðarins í Bandaríkjunum telur þó ólíklegt að tónlistarmenn muni hætta við tónleikaferðalög sín í kjölfar árásarinnar í Manchester þar sem megintekjur þeirra liggi einmitt í slíkum ferðalögum og aðdáendur ætlist til þess að geta séð sína uppáhalds tónlistarmenn á tónleikum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×