Skoðun

Að gefnu tilefni

Guðrún Nordal skrifar
Ég set niður þessi orð að gefnu tilefni.

Í fámenninu hér á landi telur fólk sig vita stjórnmálaskoðanir annarra og jafnvel afstöðu til einstakra mála, án þess að hafa nokkurn tíma hitt viðkomandi. Við erum öll dregin í dilka, jafnvel þó að við höfum ekkert ákveðið mark í eyra. Ég er óflokksbundin og hef aldrei komið nálægt starfi stjórnmálaflokks, en ég neyti að sjálfsögðu kosningarréttar míns.

Þetta er mitt val, en þar með er ekki sagt að ég sé skoðanalaus eða áhugalaus um þjóðfélagsmál eða að ég geri lítið úr hæfni þeirra sem helga sig stjórnmálum. Þvert á móti. Ég hef alltaf haft brennandi skoðanir á málefnum líðandi stundar, á stjórnmálum og ekki síður þeim flóknu áskorunum sem blasa við samfélagi okkar í dag. En ég hef einfaldlega hvorki skaplyndi né falla skoðanir mínar í svo einhlítan farveg að ég geti bundið trúss mitt við stefnu eins stjórnmálaflokks fremur en annars. Síðustu ár hafa aukinheldur sýnt að það eru fleiri og jafnvel áhrifaríkari leiðir til að hafa áhrif á samfélag sitt en að vera í flokkspólitík, og því hef ég fagnað því þegar mér hefur verið treyst fyrir stefnumótandi verkefnum í samfélaginu.

Lykilatriði

Ég gegni tveimur trúnaðarstörfum nú um stundir, annars vegar er ég formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, skipuð af Katrínu Jakobsdóttur, og hins vegar er ég í stjórn Ríkisútvarpsins, tilnefnd af Illuga Gunnarssyni. Ég hef verið beðin að taka að mér þessi mikilvægu störf af ráðherrum í tveimur ólíkum flokkum vegna starfsreynslu minnar og menntunar, og ég hef gengið til þeirra af trúnaði gagnvart þeim sem ég starfa fyrir, sem eru vitaskuld skattgreiðendur.

Umræðan á Alþingi um skipun í stjórn Ríkisútvarpsins fælir fólk eins og mig frá því að gefa kost á sér í störf þar sem flokkslegur stimpill virðist skipta meginmáli, þó að verkefnin snúist fyrst og fremst um faglega vinnu og breitt samstarf. Það er lykilatriði að Alþingi og stjórnvöld almennt hugi ekki aðeins að nákvæmum prósentureikningi svokallaðs minni- og meirihluta heldur leitist markvisst við að laða breiðan hóp fagmanna að trúnaðarstörfum í samfélaginu.

Það var sannarlega mikil gæfa að allir flokkar áttu fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins á síðustu mánuðum, þegar miklir erfiðleikar blöstu við stofnuninni. Stjórnarmenn stóðu þá þétt saman og störfuðu ekki á forsendum stjórnarmeirihluta eða minnihluta, heldur með hag Ríkisútvarpsins að leiðarljósi. Sú eindrægni og fagmennska kom vel í ljós þegar stjórnin tók samhljóða ákvörðun um ráðningu nýs útvarpsstjóra. Meðal annars af þeirri ástæðu er það dapurlegt að Pétur Gunnarsson rithöfundur skuli ekki lengur eiga sæti í stjórn Ríkisútvarpsins.




Skoðun

Sjá meira


×