Fastir pennar

Á flótta undan mennskunni

Magnús Guðmundsson skrifar
Fimm manna fjölskyldu frá Albaníu var í liðinni viku synjað um dvalarleyfi á Íslandi af Útlendingastofnun. Í synjun stofnunarinnar kemur fram að fjölskyldan sé ekki metin sem flóttafólk þar sem henni stafi ekki lífshætta af því að snúa til heimalandsins né eigi hún þar á hættu ofsóknir. Á þessum forsendum er þessari fimm manna fjölskyldu, hjónum og börnum þeirra þremur, meinað um að dvelja áfram á Íslandi og lifa hér sínu lífi, sjálfu sér og samfélaginu til góðs.

Það hefur reyndar komið fram að í fjölskyldufaðirinn, sem er sonur fyrrverandi foringja í kommúnistaflokknum, hafi orðið fyrir skotárás, húsið hefur verið tekið eignarnámi, börnunum hefur verið neitað um skólavist og fjölskyldan hefur ávallt verið sett aftast í röðina á heilsugæslu og svo mætti áfram telja. En þetta virðist þó ekki duga Útlendingastofnun. Þar þarf meira til. Kannski nokkur skotsár eða vottorð upp á að viðkomandi hafi mátt sæta pyntingum eða einhverju viðlíka. Það er reyndar erfitt að átta sig á því hvað þarf til nema fyrir fólkið á Útlendingastofnun.

Á undanförnum árum hafa ákvarðanir Útlendingastofnunar ítrekað vakið hneykslan og reiði almennings á Íslandi. Þjóðin stendur í sífelldum undirskriftasöfnunum, beiðnum, áskorunum og guð má vita hverju en stofnunin hefur staðið fast á stífu regluverki sama á hverju dynur.

Reglur geta vissulega verið góðar til síns brúks en þær eru þó samt ekki mikilvægari en manneskjur. Reglur eru ekki mikilvægari en fimm manna fjölskylda, líf hennar og velferð. Reglur eru ekki mikilvægari en framtíð þriggja barna sem hafa fundið öruggt skjól á Íslandi þar sem þau eru farin að eignast vini í skólanum, spila fótbolta í frístundum og láta sig dreyma um bjarta og gæfuríka framtíð alveg eins og hin börnin í hverfinu.

Útlendingastofnun heyrir undir innanríkisráðuneytið og það þýðir að þaðan kemur vald stofnunarinnar. Valdið til þess að taka ákvörðun um líf og framtíð fjölskyldunnar í Laugarnesinu og fjölmargra fleiri sem hingað leita hjálpar í sárri neyð.

Endalausar fréttir af óskiljanlegum úrskurðum stofnunarinnar, að ógleymdri skammarlegri vanrækslu á réttindum barna til skólavistar, geta ekki verið ráðherra velþóknanlegar. Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur því einstakt tækifæri til þess að hafa áhrif á líf þessa fólks og reyndar fjölmargra fleiri til betri vegar. Hún hefur tækifæri til þess að gera það sem fyrirrennarar hennar hefðu kannski átt að gera fyrir margt lifandis löngu en það er að sjá til þess að það sé samræmi á milli þeirrar mennsku og þess kærleiks sem þjóðin hefur að gefa og þeirra áherslna sem Útlendingastofnun vinnur eftir. Sé svigrúmið ekki til staðar innan ramma laganna þá er verkefnið einfaldlega að breyta lögunum. Það má ekkert vera ómögulegt þegar kemur að velferð fólks við þessar aðstæður.

Eins og staðan er í dag virðist manni helst að Útlendingastofnun sé á endalausum flótta undan mennskunni. Öllum er vísað úr landi sem mögulegt er að vísa úr landi. Allt í krafti regluverksins á kostnað mennskunnar. Þessu verður að linna og það strax.






×