Skoðun

Á ég að ráðleggja börnunum mínum að ganga menntaveginn?

Gunnsteinn Haraldsson skrifar
Á ég að ráðleggja dætrum mínum að verja sex, átta eða kannski ellefu árum af ævi sinni í að afla sér aukinnar þekkingar? Þekkingar sem kemur til með að færa þeim bætt kjör, styttri vinnutíma og aukin lífsgæði – eða hvað?

Samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs bætir háskólanám aðeins 16 prósentum við laun þeirra sem hafa eingöngu grunnskólamenntun. Það þýðir að háskólamenntaður starfsmaður þarf að vinna í 38 ár til að vinna upp þau laun sem viðkomandi aflar ekki á meðan námi í framhaldsskóla og háskóla stendur.

Á ég að ráðleggja dætrum mínum að mennta sig, fara í framhaldsskóla og svo háskóla þegar það tekur þær 38 ár „að ná sömu uppsöfnuðu heildartekjum og þeir sem hafa aðeins grunnskólapróf“. Til að komast aftur upp í núllið? Á ég að segja þeim að vera þolinmóðar, því þegar þær eru orðnar 60 ára gamlar muni þetta sko fara að borga sig? Á ég að segja þeim að þegar þær eiga sjö ár eftir af starfsævinni komi sko heldur betur til með að muna um að hafa gengið menntaveginn?

En sem betur fer stendur valið ekki bara um þetta tvennt. Það er nefnilega einn kostur í viðbót. Fleiri og fleiri nýta sér þann ótvíræða kost að það er stutt til Keflavíkur, og þaðan er stutt flug til annarra landa, landa þar sem menntun er metin til launa. Kannski ætti ég bara að ráðleggja dætrum mínum að fara í menntaskóla og svo í háskóla og taka svo fyrstu rútu til Keflavíkur. Það verður allt í lagi, þær þurfa ekki að hafa áhyggjur af okkur, foreldrum sínum, við förum bara með þeim. Ef við verðum ekki farin áður.




Skoðun

Sjá meira


×