Innlent

Á annað hundrað milljóna í byggðaaðgerðir á NV-landi

Sveinn Arnarsson skrifar
Stefán Vagn Stefánsson
Stefán Vagn Stefánsson
Ríflega eitt hundrað milljónum verður varið til eflingar atvinnu á Norðurlandi vestra. Farið verður af stað í nokkur verkefni sem svokölluð Norðvesturnefnd lagði til í skýrslu til forsætisráðherra sem lið í að efla byggð og atvinnutækifæri í landshlutanum. Þetta kemur fram í breytingartillögum ráðuneytanna við fjárlagagerðina sem nú er í vinnslu á Alþingi. Engar tillögur nefndarinnar voru inni í fyrstu gerð fjárlaga.

Formaður byggðaráðs Skagafjarðar, Stefán Vagn Stefánsson, var formaður Norðvesturnefndarinnar. Auk Stefáns Vagns sátu í nefndinni Héðinn Unnsteinsson frá forsætisráðuneytinu, Sigríður Svavarsdóttir frá sveitarfélaginu Skagafirði, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, oddviti Húnaþings vestra, og Valgerður Hilmarsdóttir, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar. Ásmundur Einar Daðason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, starfaði einnig með nefndinni.

Stefán Vagn segist vera nokkuð ánægður með það sem hann sjái í kortunum. „Svo virðist sem nokkur verkefni séu að verða að veruleika sem er ánægjuefni fyrir landshlutann,“ segir Stefán Vagn.

Setja á tíu milljónir króna í bíódísilframleiðslu á Blönduósi, þrjátíu til viðbótar í frumkvöðlasetur í tengslum við Piopol ehf., 45 milljónir fara í eflingu selarannsókna í landshlutanum auk þess sem nýsköp unar- og frumkvöðlasetur á Sauðárkróki fær 14 milljónir. Annar sjóður, atvinnu- og nýsköpunarsjóður á Norðurlandi vestra, fær 10 milljónir.

Að endingu mun svo Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga fá 35 milljóna króna framlag til að ráða starfsfólk svo hægt sé að fullnýta húsnæði stofnunarinnar. Aldraðir og veikir einstaklingar í nágrenni við Hvammstanga hafa upp á síðkastið þurft að leggjast inn í hvíld í Stykkishólmi, á Akranesi eða í Reykjavík, fjarri heimahögum og fjölskyldum.

Átta tillögur nefndarinnar fjölluðu um flutning opinberra starfa. Þar var um að ræða tæplega 90 stöðugildi. Svo virðist sem þær tillögur hafi ekki náð fram að ganga. Fréttablaðið greindi frá því í gær að um 6,7 milljarða útgjaldaauki fælist í breytingartillögum ráðuneytanna. Að mati formanns fjárlaganefndar eru tillögurnar allar í þá átt að styrkja grunnstoðir samfélagsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×