Viðskipti innlent

95 milljarða króna lán líklega ólöglegt

Kirstín Flygenring hagfræðingur ásamt Sigurði Halli Stefánssyni, fyrrum héraðsdómara og Jóni Þorvaldi Heiðarssyni lektor í viðskiptafræðideild í Háskólanum á Akureyri.
Kirstín Flygenring hagfræðingur ásamt Sigurði Halli Stefánssyni, fyrrum héraðsdómara og Jóni Þorvaldi Heiðarssyni lektor í viðskiptafræðideild í Háskólanum á Akureyri. Mynd / Villi
Allt bendir til þess að tæplega 100 milljarða króna lán Íbúðalánasjóðs til banka og sparisjóða hafi verið ólöglegt samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis um málefni Íbúðalánasjóðs.

Í skýrslunni segir að Íbúðalánasjóður ákvað í desember 2004 að ávaxta umframfé sitt með lánssamningum við banka og sparisjóði.

Sjóðurinn lánaði bönkum og sparisjóðum samtals 95 milljarða króna á tímabilinu desember 2004 til desember 2005. Þessi lán juku getu banka og sparisjóða til að veita íbúðaveðlán, sem aftur leiddu til meiri uppgreiðslna hjá sjóðnum. Þær ollu honum tapi auk þess að auka enn á þensluna í hagkerfinu. Með lánunum fór sjóðurinn á vissan hátt fram hjá eigin reglum um hámarkslán.

Að mati nefndarinnar hefði eðlilegasta ráðstöfun uppgreiðslufjár verið að bjóða það til útlána, sem var gert, og hætta útgáfu íbúðabréfa á meðan og eftir atvikum kaupa eigin fjármögnunarbréf, þ.e. íbúðabréf.

Lánin til banka og sparisjóða hafa verið réttlætt með því að þau hafi gefið betri vexti en slík kaup. Það er vafasamt þegar tekið er tillit til rekstrarkostnaðar, útlánaáhættu og uppgreiðsluáhættu að mati rannsóknarnefndar.

Lánin fólu í sér mun meiri áhættu en að kaupa eigin bréf. Vafasamt er að nokkur ávinningur hafi verið í því fólginn fyrir Íbúðalánasjóð að gera lánssamningana við banka og sparisjóði.

Svo segir í skýrslunni: „Varðandi það hvort lánssamningarnir hafi staðist lög ber allt að sama brunni; allt bendir til að þeir hafi verið ólöglegir“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×