Innlent

70 milljarðar fengust með hækkun skatta

Jon Hákon Halldórsson skrifar
Forystumenn í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi ræddu stöðu ríkisfjármála á Grand Hóteli.
Forystumenn í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi ræddu stöðu ríkisfjármála á Grand Hóteli. fréttablaðið/GVA
Sú leið sem hefur verið farin til að loka fjárlagagatinu frá árinu 2009 hefur að mun meira leyti snúist um skattahækkanir fremur en hagræðingu ríkisútgjalda.

Þetta kom fram í máli þeirrar Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, og Björns Brynjúlfs Björnssonar, hagfræðings hjá Viðskiptaráði Íslands, á fundi um fjárlagafrumvarpið og hagræðingu í ríkisrekstri í gær.

Björn Brynjúlfur Björnsson
Í máli Björns Brynjúlfs kom fram að til að loka 176 milljarða króna gati hefur aukning í skatttekjum numið 70 milljörðum króna. Samdráttur rekstrarútgjalda nemur aftur á móti einungis um 40 milljörðum kóna. Afgangurinn hefur verið brúaður vegna bættra efnahagsaðstæðna, sem hefur orðið til þess að draga úr bæði velferðarútgjöldum og fjármagnskostnaði ríkisins.

Þá gagnrýndi Björn Brynjúlfur að til þess að draga úr ríkisútgjöldum hefði aðallega verið farin sú leið að minnka fjárfestingu, í stað þess að minnka rekstrarkostnað. Þannig hefði til dæmis fjárfesting í innviðum setið á hakanum en ekkert hefði verið gert til að draga úr launakostnaði ríkisins. Launakostnaðurinn væri sá sami og 2009. Með því væri verið að fresta vandanum en ekki takast á við hann.

Ásmundur Einar Daðason, formaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, tekur undir gagnrýni Björns Brynjúlfs. Hann segir frestun á nauðsynlegum framkvæmdum ekki vera raunverulega hagræðingu. Þetta sé því áhyggjuefni.

Ásmundur Einar Daðason
„Og við sjáum það til dæmis í viðhaldi á sviði vegamála þar sem vegakerfið hefur látið á sjá. Þar hefur verið skorið verulega niður og það mun koma í bakið á okkur síðar. Það sem við þurfum að vinna að er raunveruleg rekstrarhagræðing á ársgrunni sem skilar sér inn í rekstur ríkisins á hverju einasta ári og það held ég að verði ekki gert nema með því að vinna að því á sem flestum sviðum að ráðast í kerfisbreytingar,“ segir hann.

Með auknum kerfisbreytingum eflist framleiðni ríkissjóðs og kostnaður lækki. „En það gerist ekki nema með kerfisbreytingum, annars bitnar það á þjónustu við almenning,“ segir Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×