Innlent

32 boðaðir í viðtal

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sigríður Hrefna Jónsdóttir segir að reynt verði að auka þátttöku kvenna í lögreglustörfum.
Sigríður Hrefna Jónsdóttir segir að reynt verði að auka þátttöku kvenna í lögreglustörfum. fréttablaðið/gva
„Við höfum byrjað að taka viðtöl og það er enn verið að boða fólk í viðtöl,“ segir Sigríður Hrefna Jónsdóttir, formaður valnefndar Lögregluskóla ríkisins.

Inntökuprófum í grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins lauk síðastliðinn þriðjudag. Alls bárust 160 umsóknir og voru 158 boðaðir í inntökupróf, 97 karlar og 61 kona.

Þá voru 109 umsækjendur sem náðu fullnægjandi árangri á inntökuprófinu, 70 karlar og 39 konur.

„Nú boðum við þrjátíu og tvo einstaklinga í viðtal og ekki er einungis horft á árangur í prófinu,“ segir Sigríður og bætir við að nefndin taki tillit til annarra þátta svo sem menntunar. Þá er tekið tillit til kynferðis með hliðsjón af því að auka þátttöku kvenna í lögreglustörfum.

„Það vill nú bara þannig til að af þeim sem boðaðir eru í viðtal eru konur í fjörutíu prósenta hlutfalli,“ segir Sigríður. „Það er kona sem fer áfram ef um tvo jafnhæfa einstaklinga er að ræða.“

Sextán hæfustu af þeim þrjátíu og tveimur sem fá boð í viðtal hefja nám við skólann. „Ákvörðun verður tekin í næstu viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×