Lífið

16 ára fá frítt mánaðarkort í ræktina

„Mánuðurinn er þeirra og þau geta nýtt hann eins og þau vilja.“
„Mánuðurinn er þeirra og þau geta nýtt hann eins og þau vilja.“ Vísir/Valli
Allir sem eru fæddir á árinu 1999 geta til loka þessa árs farið í næstu afgreiðslu World Class og fengið virkjað mánaðarkort í líkamsrækt og pantað einn tíma hjá þjálfara, án endurgjalds. Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segir hugmyndina hafa komið almennilega upp eftir að sonur hans sem varð 16 ára á árinu fór að sýna aukinn áhuga á að mæta í ræktina.

„Aldurstakmarkið í stöðvarnar hjá okkur er 15 ára og ég hef nokkrum sinnum eftir að hann náði þeim aldri reynt að fá hann með mér á létta æfingu og ekki alltaf haft erindi sem erfiði. Hann hefur alltaf verið duglegur í íþróttum en æfingastöðvarnar hafa ekki endilega heillað. Þegar hann fór svo núna að sýna meiri áhuga datt okkur í hug að gefa ungu fólki tækifæri til að prófa og gefa þeim einnig færi á að fá leiðbeiningar frá þjálfara um hvernig er best að bera sig að því það er nauðsynlegt að æfa rétt.“

Þau sem nýta sér kortið fá einnig frían aðgang að Laugardalslaug, Lágafellslaug og Seltjarnarneslaug og opnum hópatímum í öllum stöðvum World Class.

„Unga fólkið getur því tekið á því með jafnöldrum sínum eða hreinlega bara haft það náðugt í pottinum og spjallað. Mánuðurinn er þeirra og þau geta nýtt hann eins og þau vilja. Það er nauðsynlegt að hreyfa sig og svo er líka alveg jafn nauðsynlegt að hafa gaman að,“ segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×