Innlent

„You Ain't Seen Nothing Yet“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eru rétt að byrja. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á flokkráðsfundi flokksins í morgun. Hann þakkar einnig krónunni fyrir að atvinnuleysi sé minna á Íslandi en í öllum 28 ríkjum Evrópusambandins.

Bjarni kom víða við í ræðu sinni í Laugardalshöll í morgun. Hann minntist sérstaklega á þann árangur sem ríkisstjórnin hefði náð við að lækka skatta. Ríkisstjórnin væri búin að minnka skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja um 25 milljarða á síðasta ári.

„Vinstri flokkarnir virðast líta svo á að óskattlagður eyrir sé tapað fé. Við erum reyndar rétt að byrja. Skattar munu lækka frekar. Eins og maðurinn sagði: 'You Ain't Seen Nothing Yet',“ sagði Bjarni í Laugardalshöll í morgun.

Einföldun á skattkerfinu sé næst á dagskrá og hefja þurfi endurskoðun á tollum hér á landi. Ofurtollar eigi að víkja. Bjarni sagði einnig að nýr kjarasamningur við framhaldsskólakennara markaði tímamót í skólamálum og fagnaði því að samningar hefðu tekist.

Þegar talið barst að evrópumálum sagði Bjarni: „Atvinnuleysi jókst í fyrra í ellefu Evrópusambandslöndum og var að meðaltali 10,6%. Ef einungis er litið til evruríkjanna þá var það enn meira. Ég leyfi mér að vekja athygli á því í samhengi við umræðuna um efnahagsmál að atvinnuleysi á Íslandi er lægra en í hverju einasta af 28 ríkjum Evrópusambandsins. Við skulum halda því til haga að þessi veruleiki er í beinu tengslum við þá ákvörðun að hafa okkar eigin gjaldmiðil.“

Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×