Íslenski boltinn

Þór tekur við Valskonum: Ég held að það búi meira í þessu liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Ólafsdóttir sem þjálfað hefur Val í Pepsi-deild kvenna í fótbolta hætti í gær sem þjálfari liðsins og nú síðdegis varð það ljóst hver tekur við þjálfun Valsliðsins.

Hinn nýi þjálfari Vals í Pepsi-deild kvenna er Þór Hinriksson en hann hefur undanfarið þjálfað annan flokk kvenna hjá Val.

Þór er fimmtugur og hefur meðal annars verið aðstoðarþjálfari hjá Val og Keflavík í meistaraflokki karla. Auk þess þjálfaði Þór á sínum tíma yngri flokka í Hollandi.

Valtýr Björn Valtýsson ræddi við Þór í kvöldfréttum Stöðvar tvö en Þór tekur við Valsliðinu í sjöunda sæti deildarinnar. Valur gerði markalaust jafntefli við FH í síðasta deildarleik og datt út úr bikarnum í leiknum á undan.

"Valsmenn höfðu samband við mig rétt fyrir hádegið í dag," sagði Þór við Valtý Björn en sagði hann strax já? "Maður neitar ekki félagi sínu. Þeir óskuðu eftir þessu og ég sagði já við því," sagði Þór.

"Ég reikna með því að mannskapur Valsliðsins sé betri en staðan í dag gefur til kynna. Ég hitti Eddu á eftir og þá förum við yfir málin," sagði Þór.

"Liðið hefur spilað mjög vel á köflum í sínum leikjum og það hefur ekki allt fallið með liðinu. Ég held að það búi meira í þessu liði," sagði Þór.

Allt viðtalið er nú aðgengilegt inn á Sjónvarpsvef Vísis eða með því að smella á myndina hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×