Innlent

„Þetta er bara hættulegt“

Óli Kr. Ármannsson skrifar
Í bát Ribsafari er setið á hörðum miðjustokki bátsins og getur því reynt á þegar hann skellur á mikilli ferð í sjóinn.
Í bát Ribsafari er setið á hörðum miðjustokki bátsins og getur því reynt á þegar hann skellur á mikilli ferð í sjóinn. Fréttablaðið/Óskar P. Friðriksson
Skýrslu er tæpast að vænta fyrr en í haust frá rannsóknarnefnd sjóslysa vegna slyss þar sem tvær konur hryggbrotnuðu um borð í harðbotna slöngubát ferðaþjónustufyrirtækis í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Ingi Tryggvason, formaður rannsóknarnefndarinnar, segir svona slys hafa átt sér stað áður.

„Ég man eftir tveimur málum, einu á Húsavík og öðru í Vestmannaeyjum,“ segir Ingi. Í skýrslu nefndarinnar vegna slyss þegar kona hryggbrotnaði í eins bát Ribsafari í Vestmannaeyjum sumarið 2011 segir að um sé að ræða mjög varhugaverðar siglingar. „Nefndin telur því fyllstu ástæðu til að endurskoða útbúnað þessara báta og gæta mun betur að öryggi farþega.“

Ingi segir ferðirnar virðast snúast um að sigla nógu hart og stökkva fram af öldum. Við þetta geti orðið mjög mikið högg sem farþegar séu misvel á sig komnir til að taka. „Þetta er bara hættulegt,“ segir hann.

Fram kom í umfjöllun RÚV um málið að konurnar væru á þrítugsaldri, en atvikið hefði átt sér stað þegar um 100 starfsmenn Bláa lónsins voru í vorferð til Vestmannaeyja. Meðal uppákoma sem boðið var upp á í ferðinni hefði verið bátsferð með Ribsafari. Haft er eftir lögmanni Ribsafari að atvikið hafi verið tilkynnt til Vinnueftirlits og lögreglu sem nú rannsaki málið.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 23. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×