Skoðun

„Þegar brunnurinn kom“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
„Hvenær byrjaðir þú í skóla?“ spurði forvitinn hjálparstarfsmaður tólf ára stelpu á verkefnasvæði Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví og bjóst við svari á borð við „í fyrra“ eða „þegar ég var átta ára“. Stelpan svaraði hins vegar og án þess að hugsa sig um: „Þegar brunnurinn kom í þorpið.“

Á verkefnasvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu, Malaví og Úganda er það í verkahring kvenna og stúlkna að sækja vatn um langan veg og þvo þvotta í vatnsbólum. Til þess arna ganga þær daglega í tvær til þrjár klukkustundir. Eftir að hafa burðast með um 20 lítra brúsa á höfðinu með neysluvatni fyrir fjölskylduna gefst stúlkum ekki mikill tími til skólagöngu né hafa þær til þess mikla orku.

Þegar brunnur er kominn í þorpið breytast aðstæður stúlknanna hins vegar mjög til hins betra. Þá geta þær farið eftir hreinu vatni á nokkrum mínútum áður en þær hlaupa í skólann. Aðgangur að hreinu vatni skiptir þannig sköpum fyrir þær. Skólaganga og menntun þýðir að stúlkurnar giftast seinna og eignast færri börn sem þær geta svo betur sinnt. Með betri heilsu og meiri vitneskju um réttindi sín geta þær orðið virkari í samfélaginu og haft áhrif á ákvarðanir sem snerta daglegt líf þeirra – og jafnvel tekið þær ákvarðanir sjálfar!

Það má því segja að með því að tryggja aðgang að hreinu vatni sé lagður grunnur að valdeflingu kvenna og jafnrétti kynjanna. Í vatnsverkefnum okkar leggjum við sérstaka áherslu á að tryggja aðgang að hreinu vatni með því að byggja brunna, grafa vatnsþrær og reisa vatnssöfnunartanka við íbúðarhús. Þegar aðgangur að vatni er tryggður er hægt að afla fæðu á auðveldari hátt og tími gefst til skólagöngu.

Viltu taka þátt í þessu með okkur? Þú getur til dæmis gert það með því að greiða 1.800 króna valgreiðslu í heimabankanum. Margt smátt gerir eitt stórt!




Skoðun

Sjá meira


×