Innlent

„Þau höfðu verið án matar og drykkjar í nokkra daga“

Gissur Sigurðsson og Stefán Árni Pálsson skrifa
Halldór Nellett, skipherra, stendur í ströngu um borð.
Halldór Nellett, skipherra, stendur í ströngu um borð. myndir/landhelgisgæslan
Ófrískar konur og tugir barna eru í hópi rúmlega 400 flóttamanna um borð í flutningaskipi, sem varðskipið Týr er nú að draga til hafnar á Ítalíu í vonsku veðri.

Skipverjar á Tý lögðu sig í hættu við að komast um borð í skipið í nótt því það stefndi á fullri ferð til lands, þótt skipstjórnarmenn væru stungnir af.

Haugasjór og svarta myrkur voru á vettvangi þegar skipverjar á Tý reyndu fyrst að komast um borð, að sögn Halldórs Nellett, skipherra á Tý.

„Það tókst ekki, við báðum fólkið um að stöðva skipið, þar sem það var enginn áhöfn um borð, en það gat það ekki þar sem stjórntækið var ónýtt,“ sagði Halldór nú rétt fyrir hádegi.

„Þá óskuðum við eftir aðstoð frá ítölsku strandgæslunni með þyrlu svo hægt væri að hífa okkur um borð. Fljótlega steindrapst reyndar á vél skipsins og þá komumst við um borð í skipið.“

Halldór segir að fólkið hafi verið nokkra daga um borð í skipinu og komu frá Tyrklandi.

„Þau höfðu verið án matar og drykkjar í nokkra daga og við byrjuðum á því að fara með vatnsbyrðar yfir, dreifa því og huga að fólkinu. Það var algjörlega útilokað að ferja fólk á milli skipa eins og veðrið var í nótt.“

Halldór segir að það verði reynt að draga skipið með fólkið um borð í stað þess að reyna flytja það yfir um borð í Tý.

„Það er algjörlega útilokað að flytja það yfir. Það eru sextíu börn um borð, þrjár ófrískar konur og sennilega 450 manns í allt. Það sjá það allir að þegar við eigum sjálfir erfitt með að komast um borð, þá förum við ekki að flytja konur og börn í svona veðri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×