Innlent

„Það er hálf óraunhæft að einhverjum detti þetta í hug“

Benedikt Bóas skrifar
Í nýjum lögum um velferð dýra sem tóku gildi 1. janúar 2014 var í fyrsta sinn bundið í lög bann við kynferðislegri misnotkun á dýrum.
Í nýjum lögum um velferð dýra sem tóku gildi 1. janúar 2014 var í fyrsta sinn bundið í lög bann við kynferðislegri misnotkun á dýrum. vísir/vilhelm
„Það er hálf óraunhæft að einhverjum detti þetta í hug,“ segir Silja Unnarsdóttir, einn eigenda hryssanna tveggja sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á milli jóla og nýárs. Silja er dýralæknir og áttaði sig fljótt á því hvernig í pottinn var búið þegar hún kom í hesthúsið.

Matvælastofnun hefur kært til lögreglu meinta kynferðislega misnotkun á tveimur hrossum. Á vettvangi fannst meðal annars tómur brúsi undan sleipiefni.

Eiginmaður Silju kom og vitjaði um hrossin að morgni þriðjudagsins 27. desember. Þá sá hann kassa innst í einni stíunni sem átti ekki að vera þar. Hann fjarlægði kassann úr stíunni og kláraði morgunverkin. Um kvöldið þegar hann kom á ný að sinna kvöldverkunum var kassinn kominn aftur inn í stíu. Brúsi undan sleipiefni fannst svo í hesthúsinu en búið var að tæma hann. Greinilegt var að sögn Silju að brúsinn hafði verið fullur. „Það voru svo ummerki um sleipiefni á tveimur hryssum. Hvað gerðist nákvæmlega veit ég auðvitað ekki.“

Samkvæmt tilkynningu frá MAST gáfu ummerki á staðnum tilefni til að rannsaka hvort brotið hefði verið gegn ákvæðum dýravelferðarlaga um samræði eða önnur kynferðismök við dýr. Silja segir að lögreglan hafi komið á staðinn um leið og ljóst var hvað hafði átt sér stað og líti málið alvarlegum augum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×