Körfubolti

"Stolt vesturlands er undir“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnhildur og Guðrún mætast á vellinum í kvöld.
Gunnhildur og Guðrún mætast á vellinum í kvöld. Vísir/Eyþór
Það má búast við miklum baráttuleik þegar Skallagrímur og Snæfell mætast í fyrri undanúrslitaleik dagsins í Maltbikar kvenna.

Þetta eru tvö efstu lið Domino's-deildar kvenna og þó svo að Skallagrímur sé nýliði byrjaði liðið tímabilið á því að skella Íslandsmeisturum Snæfells.

Leikurinn hefst klukkan 17.00 í Laugardalshöllinni og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Gunnhildur Gunnarsdóttir er fyriliði ríkjandi bikarmeistara Snæfells og segir að þar á bæ vilji menn vitaskuld endurtaka leikinn frá því í fyrra.

„Þetta var geggjaður dagur. Snæfell varð bikarmeistari í fyrsta sinn í fyrra en nú er ný bikarkeppni og við þurfum að koma okkur í gegnum Skallagrím til að fá sæti í úrslitaleiknum um helgina,“ segir hún.



„Það hefur verið löng leið að leiknum í undanúrslitum. Leikirnir gegn Val og Stjörnunni voru erfiðir og nú er planið að toppa okkur með því að vinna Skallagrím.“

Hún á von á því að það verði erfiðara en venjulega að spila í undanúrslitum og úrslitum með skömmu millibili en um nýtt fyrirkomulag á bikarkeppninni er að ræða að þessu leyti.

„Hingað til hefur vikan öll einkennst af því að undirbúa sig fyrir stóra úrslitaleikinn um helgina. En núna hefur liðið sem vinnur í dag bara tvo daga til að undirbúa sig fyrir úrslitin.“

Gunnhildur segir að rígurinn við Skallagrím sé mjög mikill enda bæði lið frá vesturlandinu. „Ég vona bara að Snæfellingar fylli allar rútu og láti í sér heyra því ég veit að Borgnesingar munu gera það.“



Guðrún Ósk Ámundadóttir, fyrirliði Skallagríms, játar því að þetta verði stór stund fyrir félögin. „Það verður gaman að fá vesturlandsslag. Í þessum leik mun harkan inni á vellinum og dagsformið ráða úrslitum,“ segir hún.

Guðrún Ósk segir að Borgnesingar ætli fyrst og fremst að njóta stundarinnar og berjast fyrir sigrinum. „Vörnin mun skipta mjög miklu máli og baráttan. Stolt vesturlands er undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×