Innlent

„Sigur fyrir tjáningarfrelsi“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valli
„Það er mikið gleðiefni að Mannréttindadómstóll Evrópu skuli hafa tekið undir sjónarmið blaðamanna og dæmt Erlu í vil,“ segir Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands um úrskurð Mannréttindadómstólsins í máli Erlu Hlynsdóttur.

„Ég var í raun og veru alltaf viss um að þetta myndi fara þennan veg og það er gleðiefni. Þetta er sigur fyrir tjáningarfrelsi og sýnir að því miður hafa íslenskir dómstólar ekki haft þessi meginsjónarmið tjáningarfrelsisins í heiðri.“

Erla hefur nú unnið tveimur af sínum þremur málum og einnig féll mál Bjarkar Eiðsdóttur henni í vil.

„Upphaflega var þetta sameiginilegt átak Blaðamannafélags Íslands og lögfræðiskrifstofunnar Lögmenn Höfðabakka að fara með þessi mál í sameiningu,“ segir Hjálmar.

Erla sagði í samtali við fréttastofu 365 í morgun að úrskurður Mannréttindadómstólsins væru skýr skilaboð til íslenskra dómstóla. Því er Hjálmar sammála.

„Ég er sammála því að íslenskir dómstólar hafa ekki tekið nægilegt tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í mannréttindasáttmálanum varðandi tjáningarfrelsi. Því miður. Væntanlega er þetta allt saman skref í þá átt að þeir hafi þau sjónarmið til hliðsjónar í meiðyrðamálum í framtíðinni. Ég trúi því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×