Lífið

"Okkur var spáð þremur mánuðum saman“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
"Alla alvöru framleiðendur dreymir um tvo aðstoðarmenn,“ segir Margret en mennirnir með henni á myndinni heita Sigmar Logi Björnsson (Asst1) og Unnar Helgi Daníelsson Beck (Asst 2).
"Alla alvöru framleiðendur dreymir um tvo aðstoðarmenn,“ segir Margret en mennirnir með henni á myndinni heita Sigmar Logi Björnsson (Asst1) og Unnar Helgi Daníelsson Beck (Asst 2). vísir/valli
„Ég held að í dag sé ég orðin óttalaus. Ég var það ekki. En ég held að ég sé orðin það eftir þessa göngu sem ég hef gengið til að komast á þann stað sem ég er á í dag. Til þess hef ég þurft að leggja mikið á mig. Gríðarlega miklar fórnir. Miklu meira en fólk heldur,“ segir kvikmyndaframleiðandinn Margret Hrafnsdóttir.

Hún flutti ásamt eiginmanni sínum, Jóni Óttari Ragnarssyni, vestur um haf árið 1992. Þar starfrækja þau framleiðslufyrirtækið Othar Raven Pictures og lifa og hrærast í heimi kvikmynda og sjónvarps meðal stórstjarna en það gerðist svo sannarlega ekki yfir nótt.

Brjálæðislega ástfangin

Margret kynntist Jóni Óttari þegar hún var nítján ára. Þá var hann 44 ára, 25 árum eldri en hún.

„Okkur var spáð þremur mánuðum saman. Hann var aðeins eldri en ég og ég var fjórða eiginkona hans. Hann á dóttur sem er á svipuðum aldri og ég þannig að þetta var auðvitað svolítið sérstakt. Ef ég hefði ekki verið svona brjálæðislega ástfangin af honum hefði ég örugglega ekki valið þessa leið. En ég var brjálæðislega ástfangin af honum og það yfirvinnur allar hindranir,“ segir Margret. En er hún enn jafn brjálæðislega ástfangin af honum?

„Það kemur og fer,“ segir hún brosandi.

„Maður þarf að huga að ástinni. Hann er ástin í lífi mínu en maður þarf að hafa fyrir því að vera ástfangin. En þessi ást og kærleikur til hans er alltaf til staðar,“ segir Margret. Þau Jón Óttar giftu sig í Palm Springs árið 1996 en einu gestirnir voru presturinn og kona hans. Þau ákváðu strax að gifta sig aftur seinna á lífsleiðinni og hafa það þá almennilegt. Það gerðu þau svo sannarlega í desember á síðasta ári hér á Íslandi.

„Við kölluðum það óð til ástarinnar. Það var virkilega dásamleg stund með fjölskyldu og vinum.“

Kynlíf stórlega ofmetið

Margret og Jón Óttar eru búin að vera saman í 25 ár og segir Margret lykilinn að því að hjónaband þeirra haldi sé að þau trúi hvort öðru fyrir flestu.

„Hjónaband er fallvalt. Það þarf að passa uppá það og ég er mjög meðvituð um það. Við reynum að fara á deitkvöld en það er erfitt þegar er mikið að gera. Þegar við erum farin að rífast og samskiptin orðin þyngri minnum við okkur á að við höfum ekki tekið neinn tíma frá fyrir hvort annað. Þá fer fólk stundum að horfa eitthvað annað sem er bara eðlilegt. Það er manninum eðlilegt að leita að væntumþykju og athygli. Þegar við förum á deit tölum við ekki um neitt leiðinlegt. Í tilhugalífinu tölum við nefnilega ekkert um það leiðinlega. Maður sýnir sparihliðina, er sexí og fyndinn og vandar sig. Svo breytist það. Það er skiljanlegt að svona mörg hjónabönd endi, af því að við gleymum þessu. Það er ekki gott. Ég held að ástæðan fyrir því að þetta hefur varað svona lengi sé að við Jón erum miklir vinir og getum rætt flest,“ segir Margret.

„Kynlíf er stórlega ofmetið. Það er æðislegt og rosalega dýrmætt en ég held að heimurinn sé „over sexed“. Unga kynslóðin er með algjörar ranghugmyndir um kynlíf og ungar konur beðnar um að koma fram klæddar nánast eins og vændiskonur. Þetta eru fullkomlega óeðlilegar kröfur.“

Jón Óttar og Margret á brúðkaupsdaginn í fyrra.vísir/andri marinó


Fleiri börn ekki út úr myndinni


Eins og fyrr segir á Jón Óttar dóttur á svipuðu reki og Margret og barnabörnin eru orðin tvö en þau hjónin eiga einnig einn son saman, Ragnar, sem er 22 ára og stundar nám við Brown-háskólann í Bandaríkjunum. En var ekki inni í myndinni að eignast fleiri börn?

„Eftir að Nicole Kidman eignaðist seinna barnið sitt kviknaði sú hugmynd innra með mér að eignast barn með hjálp staðgöngumóður. Ég ætla ekki að útiloka þann möguleika og við höfum rætt hann. Ég hef líka velt því fyrir mér að ættleiða barn því það er fullt af börnum sem þurfa góð heimili.“ 

Elton John meðal kúnna

Margret stundaði nám í kvikmyndagerð í Columbia College í Los Angeles þegar þau fluttu til Bandaríkjanna í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar og Jón Óttar lærði handritagerð. Á meðan á náminu stóð keyptu þau goðsagnakenndu vídjóleiguna Rocket Video í félagi við annan sem þau ráku í fjölda ára.

„Þetta var leigan sem allur bransinn leigði hjá; leikarar, leikstjórar, framleiðendur, fyrirtæki. Elton John var einn af okkar stærstu kúnnum. Þegar heimurinn breyttist og þessar hefðbundnu myndbandaleigur byrjuðu að lognast út af gáfum við Louis B. Mayer-safninu í AFI myndbandasafnið. Við erum í skýjunum með að þeir sem eru að læra kvikmyndagerð þar hafi aðgang að þessu safni,“ segir Margret. 

„Ég kynntist Herbalife 1996 og heillaðist algjörlega af fyrirtækinu. Við höfum byggt Herbalife upp í næstum tvo áratugi og njótum góðs af því á alla lund. Okkar viðskipti eru í dag jafnt í Ameríku og á Íslandi og færast í aukana víða í Evrópu. Svo erum við líka stoltir hluthafar ásamt mönnum eins og George Soros, Bill Stiritz, Carl Icahn, Magic Johnson og fleiri góðum.

Í raun og veru er þetta frábært mótvægi við skemmtanabransann sem getur verið töff. Þar er mikið djamm og getur gengið á ýmsu enda oft miklar sveiflur. Þessi blanda hefur hentað mér svakalega vel.“

Með syni sínum, Ragnari.mynd/úr einkasafni


Miklir peningar í sjónvarpi í heiminum í dag


Í dag eru Margret og Jón Óttar orðin virt meðal mikils metins fólks í kvikmyndabransanum og nóg í pípunum. Þau eru með stórmyndina Kill the Poet í vinnslu sem fjallar um samband Steins Steinars við Louisu Matthíasdóttur og Nínu Tryggvadóttur, málara. Íslensku leikararnir Anita Briem, Nína Dögg Filippusdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson fara með aðalhlutverkin en heimildir Lífsins herma að það hafi komið til tals að stórleikarinn Robert deNiro fari með lítið hlutverk í myndinni. Þau eru einnig með myndina Visiting Professor í bígerð sem skartar stórum nöfnum frá Bretlandi í stærstu hlutverkum og verður það tilkynnt í loks árs. Þá er Margret að framleiða spennumyndina Terra Infirma ásamt góðu fólki.

Hjónin láta ekki staðar numið við kvikmyndir og ætla að færa sig ennn frekar út í sjónvarpsframleiðslu. Þau framleiða þáttinn Dulda Ísland sem hefur göngu sína á Stöð 2 í vetur en í honum sest Jón Óttar í þáttarstjórnandasætið. Nú líður að því að sagt verði meira frá þessari sögulegu endurkomu Jóns Óttars á sjónvarpsstöðina sem hann stofnaði. 

„Í þessum þáttum ferðast Jón Óttar um landið á staði sem eru ekki þessir hefðbundnu ferðamannastaðir og vekur athygli Íslendinga og útlendinga á þessum mögnuðu perlum um allt land. Á þessum slóðum er farið yfir söguna og sérfræðingar fengnir til liðs. Í för með Jóni Óttari slást ferðafélagar eins og Eiður Smári, Erpur Eyvindarson, Magnús Scheving, Eivör, Yoko Ono, Þorvaldur Davíð og fleiri. Snillingurinn Högni Egilsson semur svo tónlistina,“ segir Margret. Þættirnir eru teknir upp bæði á íslensku og ensku.

„Við erum einstaklega heppin með allan þann hóp sem kom að gerð þáttanna með okkur. Erlendir dreifingarðilar hafa sýnt þáttunum áhuga og finnst „formatið“ spennandi. Það getur farið víða. Það er gríðarleg eftirspurn eftir góðu sjónvarpsefni eða seríum í dag og risar eins og Amazon, Yahoo og Netflix ásamt öllum þessum hefðbundnu sjónvarpsstöðvum eru að framleiða þætti í dag.“

Nágrannar Bills Gates

Margret er þakklát fyrir það líf sem hún lifir nú þó hún telji það ekki einkennast af lúxus, eins og margir myndu halda.

„Ég held að við séum mjög jarðbundin. Við erum ekki mikið partífólk. Það eru mikil rólegheit í kringum okkur. Ég efast samt ekki um ef þú kæmir heim til okkar fyndist þér við lifa lúxuslífi. Við búum vel í Palm Desert sem er eins og Beverly Hills í eyðimörkinni. Bill Gates býr rétt hjá okkur og ég fæ húshjálp einu sinni í viku. Við förum í veislur með frægasta og valdamesta fólki í heimi. Auðvitað er það glamúrus. En ég er aðallega þakklát fyrir þá upplifun. Ég er ekki í þessu fyrir glamúr. Ég er í þessu því ég er með ástríðu fyrir góðum sögum. Mér finnst gaman að vera listamaður á sama tíma og ég er bissnesskona,“ segir Margret sem stefnir hátt.

„Mér finnst fólk stundum setja draumana sína ofan í skúffu. Ég hvet fólk eindregið til að fara á eftir draumunum, sérstaklega þeim stóru þar sem þú ferð allhressilega út fyrir þægindahringinn, eins og við Jón Óttar höfum gert mjög lengi og það hefur gert okkur gott. Ég stefni á að gera stórar myndir og stórar sjónvarpsseríur. Svo stefni ég á að hjálpa heiminum að verða heilbrigðari.“

Hjónin með Eið Smára við tökur á Dulda Ísland.mynd/úr einkasafni


Í formi eftir fertugt


Margret hugar vel að heilsunni.

„Ég man eftir konum sem undirbjuggu sig sérstaklega fyrir það að verða fertugar. Ég hélt að ég yrði undantekning en svo var ekki. Ég er búin að taka mig í gegn hressilega og aðhyllist möntruna „fit after forty“ eða í formi eftir fertugt. Ég borða mikið af próteinrikri fæðu sem er auðvelt með Herbalife, svo æfi ég í dag fimm til sex daga vikunnar og breytti mörgu. Það sem gerist hjá konum eftir fertugt er að það snarhægist á brennslunni og vöðvamassinn rýrnar mjög hratt. Þá þurfum við að borða mikið prótein og æfa. Þetta var algjört lykilatriði að skilja. Við þurfum að ákveða hvort við ætlum að verða líkamlega gamlar strax eða ekki og hvort við viljum halda í æskuljómann eins lengi og við getum. Ég hræðist það ekki að eldast. Mér finnst þetta besti tíminn. Ég veit algjörlega hvað ég vil og aðallega hvað ég vil ekki.“

Annað sem Margret hefur gert um árabil til að tryggja andlegt heilbrigði er að leita reglulega til sálfræðings. 

„Í Los Angeles telur fólk að það sé eitthvað að manni ef maður er ekki hjá sálfræðingi og litið er á sálfræðing manns sem mikið stöðutákn. Ég fór ung í þerapíu og það sem gerist er að þú burðast ekki lengur með bakpoka til að lifa af heldur blómstrar. Það eru svo margir sem ganga í gegnum lífið án þess að vinna úr hlutanum og þá brýst það út seinna meir.“

Margret setur markið hátt og ætlar að gera stóra hluti í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum í framtíðinni.vísir/valli
Mikil þörf á Íslandi

Margret og Jón Óttar ætla ekki að flytja alfarið til Íslands í bráð en Margrét verður þó með annan fótinn hér um ókomna framtíð, sérstaklega á næstunni þar sem hún hefur tekið að sér enn eitt verkefnið, og það verðugt – að vera einn af talsmönnum Fjölskylduhjálpar Íslands.

„Á Íslandi eru um sex þúsund manns á skrá hjá Fjölskylduhjálp Íslands og fjögur til fimm þúsund börn sem njóta góðs af matargjöfum. Í haust fer af stað herferð, eða aðallega vitundarvakning, um hvað þessi börn eru að borða. Við ætlum að setja af stað söfnunarátak svo hægt sé að bæta meira af grænmeti, ávöxtum, fiski og hreinna kjöti við matargjafirnar og stuðla að heilbrigðu mataræði. Átakið heitir Íslandsforeldri/rar sem vísar í að Íslendingar eru mjög duglegir að hjálpa börnum erlendis. Það er frábært og það er mikil þörf en það er líka mikil þörf á Íslandi. Ég held að hún tengist okkur öllum. Öll þekkjum við einhvern sem hefur sótt þessa aðstoð eða er að því núna. Það þurfa allir einhvern tíma að leita aðstoðar á lífsleiðinni í einhverri mynd og það er ekkert til þess að skammast sín fyrir. Það geta skapast þannig aðstæður hjá flestum, til dæmis vegna veikinda, slyss, ástvinamissis, skilnaðar og þess háttar. Við þurfum að hætta að tala um þetta sem feimnismál og vera algjörlega opin fyrir því að vera vakandi fyrir náunganum. Þannig byggjum við heilbrigðara samfélag.

Ég dáist að Ásgerði Jónu Flosadóttur, forstöðukonu Fjölskylduhjálpar, og hennar merka starfi og öllum þessum frábæru sjálfboðaliðum sem leggja hjálpinni lið. Það er mannbætandi að kynnast starfi þeirra.“ 

Að lokum forvitnast blaðamaður um forsíðumyndina sem Margret sjálf fékk hugmyndina að.

„Alla alvöru framleiðendur dreymir um tvo aðstoðarmenn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×