Innlent

„Ok, ég hefði átt að skrifa tvær til þrjár auka blaðsíður í bókina“

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Hege Storhaug segir Imama súnni og shía múslima vera andstæða frelsi og lýðræði.
Hege Storhaug segir Imama súnni og shía múslima vera andstæða frelsi og lýðræði. Vísir/Aron Brink/Getty
Hege Storhaug er baráttukona. Hún hefur verið það alveg frá því að hún hóf blaðamennsku í Noregi árið 1992. Hege, sem er 54 ára gömul, hefur gefið út sjö bækur þar sem hún hefur fjallað um málefni tengd kvenfrelsi, innflytjendum og múslimum. Sjálf skilgreinir hún sig sem vinstri sinnaðan femínista sem muni ávallt standa vaktina í baráttu fyrir frelsi, jafnrétti og lýðræði.

Með útgáfu nýjustu bókar sinnar, Þjóðaplágan Íslam, fer hún þó lengra í gagnrýni á trúarbrögðin en hún hefur nokkru sinni gert fyrr. Svo beinskeitt er gagnrýni hennar á Kóraninn að lögreglan mætir iðullega á staðinn þegar hún heldur erindi í heimalandi sínu.

Í bókinni viðrar hún þær skoðanir sínar að Islam sé ekki eins og önnur trúarbrögð því að í rót þeirra sé fólginn boðskapur sem geri bókstarfstrúarmúslimum ómögulegt að aðlagast samfélögum þar sem aðrir siðir séu ríkjandi. Hún hefur komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa heimsótt Pakistan í nokkrum ferðum sem spanna tvö ár í heild þar sem hún hefur búið með vinum sínum sem hún kallar „friðelskandi“ múslima.

Munurinn á Mekka og Medína tímabili Múhameðs

Storhaug segir að vandamál Islam sé aðallega til komið vegna þess hversu samofin æviskeiði Múhameðs spámanns trúarbrögðin séu.

Eftir að hafa orðið fyrir vitrun frá erkienglinum Gabríel í kringum árið 610 hóf hann að predika þá sýnir sem honum voru gefnar. Áherslan var lögð á að dýrka hinn eina guð án allra milliliða. Skilaboðin voru friðsamleg í fyrstu en eftir að Múhammeð var rekinn frá Mekka hafi áherslur hans breyst. Í dag þekkjum við vitranir spámannsins sem súrur Kóransins.

Múhammeð flúði til Medína þar sem hann gerðist hershöfðingi í stríði gegn heiðingjunum sem höfðu yfirtekið Mekka. Á þessu tímaskeiði hélt hann áfram að fá vitranir frá Guði. Storhaug vill meina að boðskapur þeirra hafi verið af allt öðrum toga en þær sem vitruðust Múhammeð á friðartímum. Í þeim sé falinn boðskapur alræðishyggju sem á þeim tíma hafi verið í samhengi við baráttu Múhammeðs.

Hege Storhaug heimsótti Ísland í síðustu viku til þess að kynna bók sína. Mál og Menning hefur neitað að selja hana með þeim rökum að hún innihaldi hatursáróður.Vísir/Aron Brink
Islam þarf að fara í gegnum endurbætur

Storhaug segir þessar ofbeldisfyllri súrur Medína tímabilsins vera rótina að því að trúarbrögðin Islam lendi stöðugt í menningarlegum árekstrum við aðra siði þar sem bókstafstrúarmenn trúi því að orð Kóransins komi beint frá Guði.

Hún segir því nauðsynlegt að Islam gangi undir einhvers konar endurbót, eða nútímavæðingu, svipað og Kristni gerði á sínum tíma til þess að múslimum gangi betur að aðlagast hinum frjálsa vestræna heimi.

Þetta og það að í dag ríki þöggun í fjölmiðlum hvað gagnrýni á Islam varði sem sé að skaða tjáningarfrelsið er rót þeirrar röksemdarfærslu sem hún býður upp á í bók sinni. Henni er þetta afar mikilvægt málefni þar sem hún trúir því að bókstafstrúaröfl múslima séu í dag helsta ógn við hinn frjálsa heim.

Alræðisstefna Islam nái fótfestu í gegnum moskur súnní og sjía múslima sem fjármagnaðar séu af bókstafstrúaröflum í Saudi-Arabíu og víðar. Ógnin sé slík að ekki sé útilokað að einhvern tímann í framtíðinni verði eitthvert landa Skandinavíu undir sharía-lögum.

Mikilvægt að skipta Islam í tvö hluta: friðelskandi og alræðisþenkjandi

Í bókinni greinir Storhaug vel á milli þeirra múslima sem hún hefur mestar áhyggjur af. Hún segir það ekki vera meiningu sína að ráðast að öllum múslimum, þrátt fyrir að titill bókar hennar, Þjóðarplágan Islam, gæti vissulega skilist á annan hátt

„Það var mjög mikilvægt fyrir mig að skipta Islam í tvo hluta,“ segir Hege Storhaug yfir kaffibolla á kaffihúsi í Borgartúninu. „Þá getur maður bent á hvaða múslimar það eru sem eru friðelskandi og hverjir þeirra eru ekki vinir lýðræðis og frelsis. Ég er meðvituð um að það er ekki hægt að alhæfa um hópa. Það er Medína-Islam sem er í baráttu við frelsi og lýðveldi í vestrænum ríkjum. Sú alræðisstefna er á móti jöfnuði á meðal fólks, trúfrelsi og með kúgun. Þessi öfl eru að berjast á móti okkar lifnaðarháttum og þau fara vaxandi.“

Eru þessi öfl í baráttu á móti Evrópu?

„Fyrstu skotmörkin eru þeir múslimar sem eru friðelskandi. Sérstaklega konur. Ef þeir sjá múslima konur í Noregi sem bera ekki hijab, þá ráðast þeir að henni strax. Þeir eru að berjast á móti öllum sem eru ekki múslimar, þá sem þeir kalla kafi, gyðinga og samkynhneigða.“

Öll bókin er um þetta vaxandi vandamál en þú forðast það að benda á lausnir. Ertu að stinga upp á því að stjórnvöld banni einhverjar tegundir múslima inn í lönd, fremur en aðra?

„Vinir mínir eru súnní-múslimar. Þau hafa aðlagast menningu okkar algjörlega. Málið er að þegar þú kemur upp moskum þá skiptir sköpum hverjir hafa völdin innan veggja þeirra. Þar eru oftast salafistar, sem er sami þankagangur og ríkir í Saudi-Arabíu. Svo verða það jíhadistarnir, minni hópur sem styður ofbeldi og hryðjuverk. þegar ég skrifa bækur þá hef ég alltaf sér kafla um hugsanlegar lausnir. Í þetta skiptið gerði ég það ekki. Núna vildi ég skrifa bók sem dregur upp heildarmynd af ástandinu. Ef ég ætti að tala um lausnir varðandi Ísland þá segi ég; ekki gera sömu mistök og við höfum gert í Evrópu. Þegar þú leyfir múslimum að koma upp skipulagðri starfssemi innan mosku – þá rís upp þessi alræðisþankagangur sem ógnar okkar lifnaðarháttum. Ef þið gerið það eruð þið að skapa ykkur vandræði. Sérstaklega ef peningarnir til þess að reisa hana koma frá Saudi-Arabíu.“

En hvað ef múslimar reisa mosku án þess að fá utanaðkomandi fjármagn

„Það gæti skipt málum en það er engin leið að vita það fyrr en eftir á. Þú finnur ekki einn Imam eða eina mosku sem mun standa upp og andmæla Medína-tímabili Múhammaðs."

Ertu ekki að setja alla múslima undir sama hatt með því að halda svona fram? Að það sé bara hægt að fullyrða að allir múslimar falli fyrir slíkri alræðishugsun án þess að geta gert upp sinn eigin hug?

„Ég er að tala um þetta tímabil – medína. Ef þú ert andlega þenkjandi múslimi þá er ekkert vesen, því þá elskar þú eflaust frelsi og lýðveldi. Þá ert þú með persónulega tengingu við guð, og ég skipti mér ekki af slíku. Það er þegar trúarbrögðin verða pólitísk og þegar menn vilja fara að breyta löggjöfinni í því landi sem þeir eru sem vandamálin byrja. Við erum byrjuð að sjá mun á þessu út á götu í Osló. Ég sá aldrei konur eða stelpur með hijab út á götu á tíunda áratugnum. Núna er það svo algengt að manni bregður þegar maður sér múslima konu án þess.“

Samt hafa þúsundir Imama í Mið-austurlöndum og Evrópu staðið upp og mótmælt hryðjuverkum sem framin hafa verið í nafni Islam.

„Salafistar segjast vera á móti því og það gerir Bræðralag múslima líka. Þeir einu sem segjast styðja hryðjuverk eru Jíhadistarnir. Ég er ekki að tala um hryðjuverkin sem slík heldur bara alræðisstefnuna sem er í rót trúarbragðanna.“

Súrur Kóransins er ekki raðað í tímaröð heldur eftir lengd. Þar af leiðandi er erfitt að skilgreina á milli þeirra sem skrifaðar eru á Mekka tímabilinu frá þeim sem skrifaðar eru á Medína tímabilinu.Vísir/Getty
Bull að Islam sé trú friðar

Á norsku heitir bókin Islam – 11. Landplágan. Þar er vitnað í erindi sem norski rithöfundurinn Arnulf Överland skrifaði árið 1933. Yfirskrift þess var Kristni – 10. Landplágan. Þar mótmælti hann því að ekki mætti gagnrýna Kristni með neinum rökrænum hætti og hlaut fyrir vikið dóm fyrir guðlast. Íslensk þýðing bókartitilsins lítur algjörlega framhjá þessu og þýðir titilinn sem Þjóðaplágan Íslam. Takið eftir að hér er orðið „þjóð“ notað í fleirtölu.

Hvað finnst þér um íslenska þýðingu bókar þinnar? Stendur þú með henni?

„Já, Islam hefur ekki farið í gegnum mannúðlegar endurbætur í 1400 ár. Þetta er vandamál sem við höfum nú haft í 1400 ár. Núna sjáum við afsprengi þess í hræðilegum hryðjuverkum. Þjóðaleiðtogar hafa sífellt farið með þá rullu síðan 11. september 2001 að Islam sé trú friðar og „bla bla bla bla“. En það geta þeir ekki mikið lengur því það eru tengsl.“

En er þetta ekki eins með alla trúartexta? Snýst þetta ekki frekar um hvernig mismunandi fólk túlkar sama texta?

„Þetta snýst ekki svo mikið um túlkun því þetta er skýrt í textanum. Til dæmis þegar hermenn Isis gera þræla úr konum þá eru þeir að gera það sem Múhammeð sjálfur gerði. Það er óþægilegt að segja það en það er samt satt.“

Menn eru þá nota mörg hundruð ára gamlar hugmyndir til þess að réttlæta ómannúðlegar gjörðir í nútíma samfélagi?

„Akkúrat. Þegar stúlkubörn eru gift fullorðnum mönnum í Noregi. Þá er verið að gera það sama og Múhammeð gerði á sínu æviskeiði.“

Sharía tungumál

Þú tekur engin viðtöl við Imama eða aðrar lykilpersónur í norsku samfélagi múslima í bókinni til þess að bera þessar hugmyndir þínar undir þá. Þú gefur þeim engin færi á að tala um vandamál bókstarfstrúar múslima út frá þeirra eigin hlið. Þú gefur þeim enga rödd nema þegar þú kvótar í þá til þess að reyna styrkja þín eigin rök. Af hverju ekki?

“Ég hef átt í svona rökræðum í 20 ár. Ég hef mjög oft átt í rökræðum við þannig fólk og ég verð að segja að það er mjög erfitt að tengja við þess kyns leiðtoga. Þeir eru mjög klárir að tala á þann hátt að hægt sé að skilja orð þeirra með mismunandi hætti.”

Maður hefði haldið að í svona bók þá myndir þú skoða alla þætti. Að minnsta kosti að ræða við múslima sem þú kallar friðelskandi og leyfa þeim að viðra sínar skoðanir?

„Ég hef margar þannig raddir í bókinni. Ein kona talar um hversu vel það hafi gengið að aðlagast norsku umhverfi þangað til að moska reis í hennar nágrenni. Þetta hefur verið mesta vandamálið í Noregi að leiðtogar moskana eru ekki friðelskandi. Þeir hylja sannar afstöður sínar með tvöfeldni í máli sínu. Það kom upp mál í Noregi þar sem múslimskur stjórnmálamaður hafði ekki fordæmt morð á samkynhneiðgum í Íran. Almenningur hreinlega heimtaði að hann myndi gera það þar sem hann var hluti af Verkamannaflokknum. Þegar hann loksins tjáði sig sagði hann; „sem norskur múslimi fordæmi ég að fullu morð á samkynhneigðum í Íran“. Af hverju sagði hann “norskur múslimi”? Jú, þá er hann að nota sharía-tungumál. Því samkvæmt sharía-lögum ber rétttrúuðum múslimum skylda að fara eftir þeim. En þar stendur líka að þú verður að fylgja þeim lögum sem eru í því landi sem þú býrð. Þess vegna notaði hann ekki bara orðið „múslimi“. Það er þess vegna að hann fordæmir það ekki sem múslimi – heldur bara sem norskur múslimi því hann fordæmir það ekki í raun og veru.“

Hér sést lögreglan í Marseille Frakklandi fylgjast grannt með múslimskri konu í niqab sem hylur hana frá toppi til táar. Storhaug opnar bók sína með því að lýsa dökkri upplifun sinni af einu af fátækrahverfum í borgarinnar.Vísir/Getty
Einhliða röksemdarfærsla

Þú opnar bókina á tveimur köflum sem fjalla um upplifun þína á tveimur fátækrahverfum í Evrópu. Annað í Frakklandi en hitt í Svíþjóð. Það er óhætt að segja að upplifun þín af þeim er mjög dökk. Þetta setur tón bókarinnar áður en þú byrjar á röksemdarfærslunum. Af hverju kaustu að gera þetta svona?

„Ef ég hefði farið beint í röksemdarfærslu þá held ég að fólk hefði ekki enst mikið lengra inn. Sumir kaflarnir krefjast mikils af lesandanum. Ég vildi að lesandinn upplifði fyrst hvernig það er að fara inn í svona hverfi áður en ég færi í rót vandans.“

Þetta eru lýsingar á hverfum sem eru full af glæpum, fáttækt og vanlíðan. Lesandanum eru ekki gefnar neinar ástæður fyrir því af hverju hlutir eru svona þarna. Það er eins og það sé bara gefið að það sé út af því að þarna búa svo margir múslimar. Þú hunsar algjörlega aðrar breytur hvort sem um er að ræða félagslegar-, hagfræðilegar eða efnahagslegar. Af hverju?

„Þetta er ekki svona þarna út af því að þeir eru múslimar. Þetta er svona út af Islam.“

Hvernig geturðu sagt það? Það hafa sprottið upp hættuleg glæpahverfi um allan heim í gegnum söguna. Mörg þeirra hafa orðið svona án þess að þar búið múslimar.

„Eftir að innflytjendurnir byrjuðu að koma til Evrópu hafa ekki sprottið upp hindúgettó, búddistagettó eða með gettó með kristnum frá Afríku. Þau eru ekki til. Hvers vegna enda múslimar þá alltaf í svona gettóum?“

Sama röksemdarfærsla var notuð gegn blökkumönnum í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það er viðurkennd í dag að þar hafi félagslegir og efnahagslegir þættir í samfélögunum spilað stóran hátt. Samt hunsar þú þá alveg í þinni bók.

„Nei, ég geri það ekki. Ég minnist á að í 1400 ára sögu múslima hefur þeim ítrekað mistekist að aðlagast öðrum samfélögum. Af hverju er það?”

Þú ert ekki að svara spurningunni minni. Ég er að spyrja af hverju þú nefnir það ekki einu sinni sem möguleika í bókinni að það gætu verið aðrir þættir í nútímanum en bara trúarbrögð sem valdi því að hverfin sem þú lýsir þarna í byrjun hafi þróast eins og þau hafa gert.

„Félagsleguþættirnir þarna eru afleiðing Islam. Það er minn punktur.“

Það er ekki hægt að fullyrða þetta um borgir sem eru í Svíþjóð og Frakklandi. Þar eru ekki íslömsk öfl sem stjórna öllu saman.

„Hindúbörnum í Bretlandi gengur betur í skólum en breskum börnum. Af hverju haldast íslömsk börn, sem koma kannski frá svipuðu héraði í Pakistan ekki jafn vel í skóla og hindúabörn?“

Ha? Eru bresk hindúbörn ekki bresk?

„Eins lengi og þú átt foreldra sem aðhyllast þá hugmyndafræði sem spratt upp á Medína-tíma Múhameðs þá verður tregi á meðal þeirra barna að aðlagast að því samfélagi sem þau eru í. Hvað gerist þá? Glæpatíðni og atvinnuleysi eykst vegna þess að þessi börn eru svo illa upplýst.“

Glæpatíðnin í Noregi hefur nú reyndar farið lækkandi síðustu fimm ár.

„Já, það er nú bara út af því að það eru vandræði með tölfræðilegar upplýsingar í Noregi. Þeir hafa endurskipulagt það hvernig þetta er reiknað út. Við erum ekki með tölfræðilegar upplýsingar um múslima því það er bannað með lögum að safna slíkum upplýsingum um einn tiltekin hóp innan samfélagsins.“

Hvernig getur þú þá haldið því fram að einum hóp sé frekar um að kenna en öðrum?

„Þú getur skoðað hvaðan innflytjendur koma með það í huga hvaða trúarbrögð eru í gildi á þeim svæðum. Þannig er hægt að gera áætlan fyrir Noreg. Þannig kemst maður framhjá þessu en svoleiðis upplýsingar eru aldrei birtar í fjölmiðlum.“

Bók Storhaug er lituð því sem er kölluð staðfestingar tilhneiging í röksemdarfærslu. Það er þegar höfundar telja aðeins um atriði málflutning sinum til staðfestingar en hunsa aðra þætti.Vísir/Aron Brink
Hunsar utanríkisstefnur landa í kafla um hryðjuverk

Annað sem ég hjó eftir í bókinni þinni. Það er kafli þar sem talin eru upp fjöldi hryðjuverka í gegnum árin sem framkvæmd hafa verið að múslimum víðs vegar um heiminn. Aftur á lesandinn bara að áætla að eina ástæðan fyrir þessum hryðjuverkum hafi verið trúarlegar. Þú hunsar algjörlega aðrar mögulegar ástæður fyrir þessum hryðjuverkum. Til dæmis eins og utanríkisstefnu þeirra landa sem ráðist er á hverju sinni. Af hverju?

„Þegar við tölum um utanríkisstefnur þjóða og hryðjuverkaárásir. Hvers vegna verða þá önnur lönd fyrir hryðjuverkaárásum múslima? Af hverju er ráðist á borgir í Afríku? Af hverju er ráðist á fólk í Pakistan af þeirra eigin fólki? Það sama á sér stað í Afganistan? Hvernig eigum við að útskýra það?“

Ég veit það ekki, en ég get alveg ímyndað mér að það gætu verið einhverjar aðrar ástæður þar á baki en trúarlegar. Eru flest hryðjuverk í heiminum framkvæmd af múslimum?

„Já. Okkar heimur er undir mestri ógn frá hryðjuverkum frá múslimum sem aðhyllast það sem Múhammeð predikaði á Medína tímabilinu.“

Samkvæmt skýrslu FBI frá 2010 sem tekur saman hvers trúar þeir hryðjuverkamenn sem hafa gert hryðjuverk í Bandaríkjunum frá árunum 1980 – 2005 voru, þá voru aðeins 4% þeirra múslimar.

„Hverjir voru hinir? Hvað er flokkað undir hryðjuverka árásir samkvæmt þessu? Er það að sprengja upp ruslatunnu það sama og að drepa fjölda manns í París? Mér finnst þetta ekki sambærilegt. Allar öryggissveitir í Evrópu hafa mestar áhyggjur af öfga múslimum. Við getum rætt þetta endalaust en þegar kemur að því að tala um vandamálið sem fylgir alræðisstefnu öfga-múslima í Evrópu, þá finnst mér þetta ekki skipta máli. Ég hef ekki eins miklar áhyggjur af hryðjuverkum eins og hvernig þeir eru að ráðast gegn frelsi og lýðræði skref fyrir skref.“

Þöggun í fjölmiðlun varðandi Islam

Þú og útgefendur þínir á Íslandi segist vilja rökræna umræðu um áhrif múslima á vestræn samfélög. Finnst þér það að gefa út heila bók sem er einhliða og telur ekki upp neinar aðrar hugsanlega ástæður fyrir því að hlutir hafa þróast eins og þeir hafa þróast vera góð fyrir rökræna umræðu?

„Ok. Ég hefði þá átt að skrifa tvær til þrjár auka blaðsíður. Medína múslimar minnast oft á utanríkisstefnu sem ástæðu hryðjuverka en ég trúi því bara ekki. Ég bíð þá bara eftir því að öfga-hindúar byrji að ráðast á okkur.“

Þú talar um þöggun í fjölmiðlum varðandi málefni tengd Islam.

„Ég fékk aðeins þrjár mjög góðar bókaumfjallanir þegar ég gaf út þessa bók í Noregi. Ég ég hjó eftir því að það var allt fólk sem þekkti Islam vel. Þeir sem ekki þekkja þessi trúarbrögð fylgja alltaf fordómar. Ég hafði fordóma áður en ég kynnti mér Islam. Ég hélt að Islam væri meira eða minna eins og Kristnidómur. Allt sama kaffið. Ég var mjög opin á að skilja trúarbrögðin. Það að kasta orðinu „rasisti“ fram þegar verið er að tala um málefni tengd trúarbrögðum finnst mér ekki skapa góðan umræðupall.“

Er ekki aktivisti Pediga

Að gefa út svona bók með þessu titli er ávísun á gagnrýni. Er munur á því sem þú ert að predika hér og það sem til dæmis samtök á borð við Pediga standa fyrir, að vera gegn Islamsvæðingu Evrópu?

„Ég er ekki aktivisti fyrir þeirri hugsjón. Ég hef ekki tekið þátt í neinum kröfugöngum gegn Islam. Ég hef reynt að útskýra hvað er að gerast hugmyndafræðilega í Evrópu. Ég hef reynt að útskýra fyrir fólki hver ástæðan sé og hvers konar framtíð við getum átt von á ef þetta fær að halda áfram. Síðast liðin tíu ár hef ég áttað mig á því að þetta er ógn á okkar samfélag sem er rísandi. Mér finnst það vera mín skylda að útskýra af hverju hún stafi.”

En getur svona bók ekki sett fjölda fólks út á jaðarinn? Eyrnamerkt fjölda saklausra einstaklinga undir eitthvað sem þeir eiga engan þátt í? Myndað öðrun svipaðri þeirri sem gyðingar lentu í á tímum seinni heimstyrjaldarinnar?

„Friðelskandi múslimar styðja mig! Sérstaklega fólk sem hefur flúið Íran. Það sér að sú ógn sem það var að flýja er byrjuð að rísa í Evrópu líka. Ef gyðingarnir hefðu verið að vinna að alræðissefnu á fjórða áratugi síðustu aldar, hefðum við þá ekki átt að stoppa og spyrja út í það? Þeir voru ekki að því. Það var engin ógn af þeim. Þeir hafa verið að auðga vestræn þjóðfélög í margar aldir. Í gegnum listir eða fjárhag. Þetta eru mjög ólík mál.“

Óttastu það að skandinavísk lönd gætu einn daginn endað undir sharía-lögum?

„Allt getur gerst. Við vitum ekki framtíðina. EF þú hefðir spurt mig fyrir sjö árum síðan hvort það væri mögulegt að eitthvað eins og ISIS gæti orðið til og náð jafn miklum völdum? Þá hefði ég sagt þér að þú værir ruglaður. Ég gat ekki spáð fyrir um ris þeirra eða alla fylgjendur þeirra í Evrópu. Hlutir hafa verið að þróast mjög hratt og í neikvæða átt. Hvað gerist næstu fimm ár er mjög erfitt að spá fyrir um. Segjum sem svo að það verði tvær eða þrjár fleiri hryðjuverkaárásir í mið-Evrópu. Segjum sem svo að það verði líka gerðar þannig árásir í Svíþjóð. Allt í einu geta hlutir breyst mjög skyndilega.“

Þú aðgreinir friðelskandi múslima frá þeim sem aðhyllast þessari alræðisstefnu. Hvernig er hægt að greina á milli þeirra sem eru “friðelskandi” múslimar og hverjir ekki?

„Það er mjög auðvelt ef þú þekkir Islam og hvernig fólk er. Maður getur séð það mjög fljótlega. Ég get gefið þér dæmi. Í síðustu viku í Noregi var umræða í sjónvarpi. Músliminn sem þar var neitaði að taka í höndina á konunni sem hann hafði verið að tala við. Friðelskandi múslimi myndi aldrei gera það. Þeir koma fram eins og ég og þú. Ef ég get sest niður og talað við múslima eins og ég sit hér nú og tala við þig, þá er hann friðelskandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×