Innlent

„Landsfundurinn er grín"

SB skrifar
Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS.
Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS.

Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS, gagnrýnir landsfund Sjálfstæðisflokksins harðlega og segir lítið rúm fyrir gagnrýnar umræður. Illa sé staðið að skipulagi fundarins.

„Þessi landsfundur er í raun algjört djók. Venjan er sú að sjálfstæðismenn komi saman, skapi stefnu en á þessum fundi á að lesa upp fyrir menn hver stefnan er og í raun eina leið fyrir menn að koma sér á framfæri er ef þeir eru svo óforskammaðir að bjóða sig fram á móti forystunni og þá fá þeir að tala klukkan 9:15 að morgni," segir Þórlindur

Þórlindur segir af sem áður var þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins var opinn vettvangur fyrir umræðu.

„Flokkurinn hefur alltaf haft þá sérstöðu að það er tekist alminnilega á um mál, bæði í litlum hópi og fyrir stórum hluta landsfundargesta. En að þessu sinni hefur verið ákveðið að sleppa því öllu saman. Væntanlega þykir mönnum það eitthvað óþægilegt fyrir forystuna að einhverjir aðrir en hún hafi skoðanir á stefnu flokksins og að þessu sinni virðist menn hafa ætlað að sleppa við það."

Þórlindur segir vanta skýra stefnumörkun hjá flokknum: „maður hefði haldið að Sjálfstæðisflokkurinn færi út í það að skilgreina stefnu sína almennilega, ekki eins og staðan sé mjög góð hjá flokknum eða þjóðfélaginu, en í staðinn er haldinn fundur sem ég vil meina að sé algjört djók."

Rætt var við Magnús Árna Magnússon, stjórnmálafræðing og rektor háskólans á Bifröst, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Magnús sagði Sjálfstæðisflokkinn á tímamótum.

„Þetta er mjög óvenjulegur fundur. Hann ber að með óvenjulegum hætti, varaformaður segir af sér, blásið til fundar með stuttum fyrirvara, ég hef heimildir fyrir því innan úr flokknum að menn þyki hann sérstakur og skilji ekki þörfina á honum."

Magnús sagði ESB umræðuna reyna á flokkinn.

„Þessi flokkur hefur verið í lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum mjög lengi, verið breið kirkja og þolað margar skoðanir innan sinna raða, en maður finnur að það er að verða býsna mikill munur á skoðunum manna, sérstaklega í evrópumálum og það muni reyna á saumana á flokknum á þessum fundi.

Spurður hvort það væri hætta á klofningi innan Sjálfstæðisflokksins sagði Magnús: „Þetta er mjög mikilvægur fundur fyrir formanninn og framtíð þessa stjórnmálaflokks og hvort hann verði áfram einn á hægri vængnum á Íslandi."









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×