Lífið

„Konur á okkar aldri geta allt"

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Vilborg, Rebekka, Þórunn Magnea, Guðlaug María, Guðný María og Helga Braga.
Vilborg, Rebekka, Þórunn Magnea, Guðlaug María, Guðný María og Helga Braga. Vísir/Sigga Ella
Mér finnst alltaf svo fyndið hvað það er mikill munur á viðhorfi til kynjanna þegar þau eldast. Karlar þykja voða sexí og sætir með grátt í vöngum en það þykir ekki flott þegar konur eru orðnar gráhærðar – það þorir heldur engin að vera gráhærð hér á landi. Þetta er svona okkar uppreisn við þessar stöðluðu ímyndir. Konur á okkar aldri geta allt,“ segir Vilborg Halldórsdóttir sem er hópnum Leikhúslistakonur 50+.

Hópurinn stendur fyrir mánaðarlegum sviðslistakvöldum í Iðnó í vetur, hópurinn samanstendur af leikkonum, leikstjórum, höfundum, söngvurum og dönsurum sem hafa tekið höndum saman til að reka menningarstarfsemi í Iðnó í vetur. Konurnar eru flestar komnar yfir fimmtugt og vilja skapa starfsvettvang fyrir sviðslistakonur sem oft fá lítið að gera eftir að þær hafa náð ákveðnum aldri.

Konurnar í hópnum skipta með sér kvöldum og þema hvers mánaðar er misjafnt. Núna á mánudagskvöldið stendur Vilborg fyrir ljóðakvöldi ásamt þeim Þórunni Magneu Magnúsdóttur, Guðlaugu Maríu Bjarnadóttur og Hlíf Sigurjónsdóttur auk þess sem Helga Björnsson búningahönnuður var til aðstoðar við útlit. „Þetta byrjaði þannig að Hlín Agnars, María Reyndal og fleiri góðar konur stofnuðu hóp á Facebook. Þar stefndu þær konum saman sem fóru að spjalla. Út úr því kom alveg fullt af hugmyndum um það sem þessar konur langar að gera. Síðan lánaði Magga Rósa í Iðnó okkur húsnæði og það er eiginlega svona forsendan fyrir því að þetta varð til,“ segir Vilborg.





Ljóðakvöldið Þær Vilborg, Þóra Magna og Guðlaug MARÍA VERÐA MEÐ LJÓÐAKVÖLD Á MÁNUDAGINN ÁSAMT HLÍF SIGURJÓNSDÓTTUR. MYND/SIGGA eLLA
„Ég ákvað til dæmis að vera með af því að mig langaði til að dansa. Það er enginn að biðja konu sem er 57 ára um að dansa,“ segir Vilborg sem mun taka þátt í danssýningu hópsins eftir áramót og mun þannig dansdraumurinn rætast. Sjálf er Vilborg leikkona en hún hefur ekki mikið leikið undanfarin ár. 

Hún segir konurnar í hópnum allar hafa fundið fyrir því að á vissum aldri fækki tækifærum. „Þetta er samt að breytast, það eru allir múrar að hrynja og þetta verkefni okkar er liður í þeim breytingum. Maður þarf sjálfur að skapa sér viss tækifæri,“ segir hún. „Það er rosalega mikil breyting síðan ég útskrifaðist úr Leiklistarskólanum árið 1983. Ég eignaðist strax annað barn eftir að ég útskrifaðist og þá lokaðist ég eiginlega bara inni í íbúð. Í dag er þetta allt annað, sýnileikinn er orðinn meiri og með miðlum eins og Facebook eru miklu meiri möguleikar á því að týnast ekki. Sýnileikinn brýtur niður múra.“ 

Hún líkir verkefni kvennanna við anarkískar vinnubúðir þar sem þær stíga út fyrir rammann. Konurnar takast líka á við önnur tjáningarform en þær hafa verið í áður. „Það gerir bara hver það sem hana langar, ekki það sem öðrum finnst hún passa inn í; leikstjóri prófar að leika, leikmyndahönnuður flytur ljóð og svo framvegis. Þetta er svona allsnægtaborð sem við erum að rigga upp.“

Vilborg segir þær spenntar fyrir vetrinum. „Það er alveg rosalegur sköpunarkraftur og orka í þessum hóp. Eins og Edda Björgvinsdóttir sagði þá er það alveg ótrúlegt að konur sem eru komnar á okkar aldur hafi ekki meira að gera. Við erum með svo mikla reynslu, þekkingu, færni og fullt af orku. Auk þess erum við ekki með börn þannig að við höfum nægan tíma. Við ætlum að breyta þessu,“ segir hún. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×