Lífið

„Hún heyrði að ég var með kökkinn í hálsinum er ég höfðaði til samvisku hennar“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Helga Gabríela.
Helga Gabríela. vísir/einkasafn
Bloggarinn Helga Gabríela vandar blaðakonunni Mörtu Maríu Jónasdóttur, sem oftast er kennd við Smartland, ekki kveðjurnar í færslu sem hún birtir á heimasíðu sinni. Marta María segir Helgu Gabríelu fara frjálslega með sannleikann þar sem hún hafi ekki verið nafngreind í greininni og engar myndir birtar af henni.

Helga segir  frá lífsreynslu sem hún lenti í er „óprúttinn aðili“ dreifði myndum af henni til „hinna ýmsu aðila, inná facebook síður, bloggmiðil og fjölmiðla.“ Myndirnar hafði Helga sett á Instagram-síðu sína en áður en hún gerði það mjókkaði hún á sér mittið með hjálp smáforrits í símanum sínum.

„Stuttu seinna fékk ég skilaboð á inboxið frá Mörtu Maríu um að hún vildi skrifa um þetta á Smartland. Ég vildi það ekki og ákvað að hringja strax í hana.

Ég spurði hvort við gætum rætt saman í trúnaði og hún samþykkti það. Ég bað hana einlægt um að skrifa ekki um myndirnar, ég væri 23 ára og hefði gert mistök sem ég sæi eftir og væri búin að læra af því. Það myndi ekki þjóna neinum tilgangi fyrir hana, einungis koma mér illa,“ segir Helga og bætir við að hún hafi neitað því að koma í viðtal til Mörtu.

„Hún talaði niður til mín og var ágeng í símanum og lét spurningar rigna yfir mig. Hún heyrði að ég var með kökkinn í hálsinum er ég höfðaði til samvisku hennar. Loks sagði hún: „Ég mun ekki birta þetta ef þú ert ósátt við það.““

Helga segir að Marta hafi ekki látið staðar numið þar og haldið áfram að reyna að fá sig til að tjá sig um málið opinberlega.

„Hún hélt samt áfram að ræða um málið og talaði eins og þetta væru margar myndir og spurði hvort ég væri ekki að blekkja lesendur mína? Hún gekk svo langt að spyrja mig hvort mér fyndist ég ekki þurfa að koma fram opinberlega og biðjast afsökunar á því sem ég hafði gert? Þá fyrst skildi ég tilganginn og áttaði mig á að hana þyrsti í að gera æsifrétt úr þessu og tengja við bloggið mitt. Ég kvaddi hana en ítrekaði trúnaðinn,“ segir Helga.

„Dagana eftir samtalið var ég í spennutreyju ekki vitandi hvort hún myndi láta það eftir sér að birta eitthvað. Viku seinna var ég farin að hallast á að hún myndi standa við loforð sitt, hún ætti sjálf börn og áttaði sig á að allir geta gert mistök. Því miður kom annað í ljós og hún birti grein í Sunnudagsblaði Moggans. Einnig birti hún greinina í Smartlandi daginn eftir með fyrirsögninni

„Fótósjoppar af sér Instagram-myndir …“

Þarna kom skellurinn.  Mér dauðbrá þar sem þetta var blásið upp úr öllu valdi. Ég átti að hafa notað photoshop forritið til að breyta mér. Mér leið illa vitandi að fólk væri að senda myndirnar á milli, dreifa á facebook og smjatta á þessu,“ bætir Helga við. Í greininni sem hún vísar í er Helga ekki nafngreind en hringur þeirra sem Marta gæti verið að tala um þrengdur með því að segja að stúlkan sé 23ja ára og hafi notið töluverðra vinsælda í bloggheimum.

Helga segist ekki vita enn af hverju hún ákvað að mjókka á sér mittið á myndunum og viðurkennir mistök sín í pistlinum. Þá segir hún að Marta hafi ekki farið með rétt mál í greininni og að frásögn hennar sé „löguð til að henta slúðrinu.“

„Í greininni skrifar Marta að hún hafi hringt í mig og gefur í skyn að þetta væri miklu meira en tvær myndir. Einnig vísar hún í það sem ég sagði við hana í trúnaði þrátt fyrir að lofa mér því að gera það ekki. Hún gerir vísvitandi lítið úr mér og segir

„Ég ákvað að sýna myndirnar ekki opinberlega þótt ég sé með þær undir höndum því ég vorkenni henni.“  Hún vorkenndi mér þó ekki meira en það að hún sveik loforðið sitt við mig.“

Helga þakkar öllum þeim sem veittu henni stuðning í kjölfar greinarinnar en er mjög ósátt við vinnubrögð Mörtu.

„Það er varhugavert að blaðamaður hjá virtu dagblaði leggist svo lágt að taka eina persónu fyrir í skrifum sínum. Sér í lagi þegar sami blaðamaður heldur úti vef þar sem lögð er ofuráhersla á að birta myndir og greinar í gríð og erg um „útlit, fallega fólkið, megrun, lýtaaðgerðir, einelti“ og annað í þeim dúr.“

Færslu Helgu í heild sinni má lesa hér.

Marta María Jónasdóttir, blaðamaður og ritstjóri Smartlands.
Vísir hafði samband við Mörtu Maríu Jónasdóttur og vísaði hún í svar sitt á Facebook-síðu sinni frá því fyrr í kvöld.

Þar segir hún Helgu Gabríelu fara frjálslega með sannleikann þar sem hún hafi ekki verið nafngreind í greininni og engar myndir birtar af henni. Marta María hafi aðeins sagt að um 23 ára bloggara væri að ræða, sem gæti átt við aðra hverja stúlku á þessum aldri þar sem að þær séu margar með blogg. 

Marta María segir það þó jákvætt að Helga Gabríela hafi stigið fram með bloggfærslu sinni.

Í grein sinni frá því fyrr í mánuðinum segir Marta María meðal annars:

Þess vegna brá mér töluvert þegar mér fóru að berast Instagram-myndir af 23 ára gamalli stúlku sem hefur notið töluverðra vinsælda í bloggheiminum. Myndirnar sem ég fékk sendar voru myndir sem stúlkan hafði póstað sjálf og einnig myndir sem vinkonur hennar höfðu póstað. Á þessum nákvæmlega sömu myndum mátti sjá greinilega hvað hún var miklu mittismjórri á sínum eigin myndum en á myndum vinkvenna sinna. Þegar þessar myndir voru bornar saman var munurinn mikill.

Mín fyrstu viðbrögð voru að þetta hlyti að vera eitthvert grín en þegar ég lagðist yfir þetta og fékk að sjá fleiri myndir varð ég aðallega hissa. Aðallega vegna þess að stúlkan er svo prýðilega vel heppnuð í grunninn, gáfuð, í góðu formi og afar hugguleg á allan hátt. Ég hugsaði með mér að ef þessi stúlka þyrfti að fótósjoppa sig þá mættum við hinar venjulegu Guggurnar varla lifa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×